,,Mér fannst það afrek að komast inn í leikinn aftur og svo fengum við tækifæri til þess að komast yfir en hentum því frá okkur. Berkis setti þrist á okkur og þá var þetta orðið erfitt. Ég gaf mönnum þau fyrirmæli í fjórða leikhluta að setja gildrur um allan völl og taka áhættu í vörninni og taka öll opin skot. Það er alltaf erfitt í svona leikjum að elta og þetta féll ekki með okkur hérna í lokin og ég sagði það fyrir þessa rimmu að þetta myndi klárast í oddaleik,“ sagði Páll Kolbeinsson þjálfari KR sem nú eru kominn á leiðarenda eftir 83-93 ósigur gegn Snæfell í oddaleik.
,,Lykilleikmenn voru ekki með fyrstu 30 mínúturnar og það er mjög svekkjandi að vera með góða leikmenn sem stíga ekki upp í alvöru leikjum. Þetta eru samt ungir leikmenn sem eiga mikið inni þannig að framtíðin er þeirra,“ sagði Páll en langar hann til þess að halda áfram að þjálfa lið KR á næstu leiktíð?
,,Ég er búinn að starfa innan KR í mörg mörg ár og við höfum verið að byggja upp gott lið en þetta tímabil lenti þjálfarastaðan á mér því KR fékk ekki þann þjálfara sem það vildi síðasta sumar. Ég tók þetta að mér með dyggri aðstoð góðra manna hér í KR þannig að ég ætla mér bara aftur í formennsku í meistaraflokksráði og fara í það að finna þjálfara,“ sagði Páll en hver er hans tilfinning fyrir úrslitaeinvígi Keflavíkur og Snæfells?
,,Þetta verður hörkurimma og erfitt að spá um úrslit en ég vona að Snæfell taki rimmuna og verð að viðurkenna að ég held með dreifbýlisliðinu sem gamall Skagfirðingur. Ég vona að Ingi Þór taki liðið sitt alla leið og þá hefur Hlynur Bæringsson spilað frábærlega í allan vetur og ég held hann eigi allt gott skilið og gaman fyrir hann að vinna titil í ár víst við tókum þetta ekki,“ sagði Páll og ljóst að KR-ingar fá nýjan þjálfara fyrir næstu leiktíð.



