18:41
{mosimage}
(Páll Axel Vilbergsson gerði 18 stig fyrir Grindavík í dag)
Páll Axel Vilbergsson átti í dag sinn besta leik í seríunni gegn KR með 18 stig og 4 fráköst en það dugði skammt því KR jafnaði einvígið í 2-2 og því verður oddaleikur á mánudag í Vesturbænum. Páll Axel hefur verið að glíma við erfið meiðsli í úrslitakeppninni en kom sterkur af bekknum í dag.
,,Ég ætlaði mér að mæta hér í dag og taka á móti titlinum en einhverra hluta vegna gekk það ekki upp. Þetta voru bara hörkulið sem mættust í dag en við hefðum getað gert betur á mörgum vígstöðvum en við gerðum það ekki og því þurfum við núna að snúa bökum saman og virkilega langa í þetta,“ sagði Páll Axel í samtali við Karfan.is eftir leikinn.
,,Heimavöllurinn er ekkert rosalega mikilvægur í þessu einvígi en vissulega eru menn að spila á völlum sem þeir koma á daglega og stunda æfingar en leikmenn KR og Grindavíkur eru klassa leikmenn og skiptir þá engu máli hvort þeir séu heima eða úti og öll þessi umræða um dagsform er bara kjaftæði því þetta er spurning um vilja,“ sagði Páll Axel sem er ekki orðinn 100% af meiðslum sínum.
,,Ég verð bara að gleyma þessum meiðslum því ég er kominn í nýtt hlutverk að koma inn af bekknum og það er bara fínt því við höfum spilað vel svona og stígandinn hefur verið góður,“ sagði Páll en hvernig telur hann að oddaleikurinn fari?
,,Þú færð mig ekki til að standa hér og segja að við rúllum yfir KR heldur verðum við bara að sjá til en Grindavík mætir til að vinna oddaleikinn. Við sögðum það í byrjun tímabils að við ætluðum okkur að keppa um Íslandsmeistaratitilinn og það hefur ekkert breyst,“ sagði Páll Axel Vilbergsson fyrirliði Grindavíkur.



