00:40
{mosimage}
(Skytturnar þrjár Þorleifur, Páll og Helgi leiddu Grindavík til sigurs í kvöld)
Eftir undirmálsframmistöðu á hans mælikvarða í tveimur síðustu viðureignum Grindavíkur og KR lét Páll Axel Vilbergsson ljós sitt skína þegar Grindvíkingar náðu langþráðu markmiði með 91-80 sigri á toppliði KR í Iceland Express deildinni. Páll Axel gerði 20 stig og tók 9 fráköst fyrir Grindvíkinga í kvöld og þá setti hann stórar körfur á lokasprettinum sem gulltryggðu að gestirnir úr Vesturbæ kæmust ekki nærri.
,,Ég mæti bara í leik og legg mig fram, stundum virkar það og stundum ekki,“ sagði Páll Axel um misjanft gengi sitt gegn KR í vetur. Páll setti stórar körfur á lokasprettinum og hann viðurkenndi fúslega að það leiddist honum lítið. ,,Ég viðurkenni það alveg að það var miklu skemmtilegra að spila þennan leik heldur en síðasta leik gegn KR þar sem ég drullaði algerlega upp á bak. Ég vil ekki meina að ég þurfi að sanna eitthvað fyrir einum eða neinum, ég lít þannig á það. Ég mætti ekki í þennan leik til að sanna eitthvað heldur kom til að leggja mig fram og vinna leikinn,“ sagði Páll Axel sem hefur mátt þola stranga gæslu frá KR í síðustu leikjum liðanna. Honum tókst þó að fría sig betur í Röstinni í kvöld og það skilaði árangri.
,,Ég var miklu ákveðnari en oft áður í upphafi leiks, fór í boltann til að byrja með því ég á það til að fljóta stundum bara með og svo er allt í einu kominn hálfleikur og ég enn þá bara fljótandi eins og einhver bjáni. Þannig að ég sótti boltann strax í kvöld til að koma mér í gang og opna fyrir aðra og það gekk bara fínt,“ sagði Páll Axel sem var ánægður með baráttuna í Grindavíkurliðinu í kvöld.
,,Þegar liðin mættust síðast þá mættu KR bara og börðu á okkur og við hrökkluðumst bara undan eins og smástrákar en það gengur bara alls ekki heldur þurfum við að taka hraustlega á móti. Ekki svo að skilja að við ætluðum að bjóða þeim í Röstina til að berja þá heldur var allt að ganga upp fyrir leikinn. Tilfinningin, hvernig leikurinn byrjaði og undirbúningurinn í dag gerði það að verkum að við mættum þetta tilbúnir í leiknum og Friðrik þjálfari var búinn að punda vel á lykilleikmenn liðsins um að þeir væru eins og kettlingar og menn bara tóku það til sín og þar á meðal ég og allir staðráðnir í því að gera betur og við vorum bara sterkari andlega,“ sagði Páll sem hefur ekkert á móti því að verða deildarmeistari.
,,Ef það á ekki að verða þá er það bara þannig en við hugsum bara um að klára okkar verkefni og við vitum að það er ekki langt í næstu lið og mörg lið í töflunni sem eru frekar neðarlega miðað við getu og við tökum engu sem gefnu í þessari deild. Við þurfum að mæta tilbúnir í alla leiki og eiga toppdag gegn öllum þessum liðum,“ sagði Páll Axel og ef Grindvíkingar leika af viðlíka krafti í framhaldinu verða þeir illir viðureignar.



