spot_img
HomeFréttirPáll Axel þarf einn þrist til að jafna met Guðjóns

Páll Axel þarf einn þrist til að jafna met Guðjóns

Nú er heldur betur að draga til tíðinda fyrir utan þriggja stiga línuna. Í kvöld sallaði Páll Axel Vilbergsson niður 7 þriggja stiga körfum fyrir Borgnesinga er þeir lögðu Snæfell í Stykkishólmi. Þetta þýðir að á ferlinum er Páll Axel kominn með 964 þriggja stiga körfur í deildarkeppninni. Guðjón Skúlason fyrrum leikmaður Keflavíkur trónir á toppi þessa lista með 965 þriggja stiga körfur í deildarkeppni á ferlinum.
 
 
Páli vantar því aðeins einn þrist til að jafna met Guðjóns og næsti þristur eftir það, eins og gefur að skilja, ryður meti Guðjóns úr sessi.
 
Páll Axel er 36 ára gamall og hefur gert 32 þriggja stiga körfur í deildinni í þeim 10 leikjum sem hann hefur spilað með Skallagrím á tímabilinu. Næsti leikur Skallagríms er á heimavelli þann 23. janúar er Borgnesingar taka á móti Stjörnunni og ekki ólíklegt að metið falli þann daginn!
  
Mynd/ Eyþór Benediktsson – Páll Axel reyndist Hólmurum illur viðureignar í kvöld.
Fréttir
- Auglýsing -