spot_img
HomeFréttirPáll Axel: Erum með bein í nefinu

Páll Axel: Erum með bein í nefinu

14:57

{mosimage}

Páll Axel Vilbergsson var valin í úrvalslið umferða 16-22 í Iceland Express deild karla fyrr í dag. Grindavík, lið Páls Axels, mætir Skallagrím í 8 liða úrslitum úrslitakeppninnar og sagði hann að leikir þessara liða hafa verið miklar rimmur í gegnum árin.


,,Þetta kemur í skorpum,” sagði Páll Axel í léttum tón en lið hans mætir Skallagrím í úrslitakeppninni þriðja árið í röð. ,,Þetta var Tindastóll í einhver þrjú ár í röð og nú er það Skallagrímur. Í fyrra vorum við í fimmta og þeir í fjórða og við tókum einvígið,” sagði Páll Axel og hélt áfram. ,,Þetta hafa verið miklar rimmur í gegnum tíðina og verður skemmtilegt að takast á við það.”

Grindavík tapaði í gær fyrir Njarðvík og Páll Axel viðurkenndi að það væru mikil vonbrigði að tapa enda setja menn sér það markmið í öllum leikjum að vinna. En miðað við önnur úrslit var annað sætið nokkuð fjarlægt. ,,Það var mjög langsótt að KR færi að tapa heima fyrir Sköllunum eftir tap á Króknum í síðustu umferð. Þannig að sigur okkar í Njarðvík hefði ekki fleytt okkur neitt. Við spiluðum ágætlega framan af en svo datt botninn úr þessu hjá okkur og við náðum ekki að fylgja eftir ágætis fyrri hálfleik.”

Nýr erlendur leikmaður er gengin til liðs við Grindavík og Páll Axel sagði að undanfarnir leikir hafi farið í að koma honum inn í leik þeir gulu. ,,Við erum að breyta öllu í okkar leik. Griffin fer en hann var amerískur bakvörður sem sótti mikið á körfuna og skoraði mikið inn í teig. Samt er allur leikstíll liðsins að breytast rosalega því við fáum miðherja í staðinn og það sem við höfum verið að gera í undanförnum leikjum er að stilla saman strengi og undirbúa okkur fyrir úrslitakeppnina. Leikurinn í gær var mikilvægur fyrir þær sakir að fá toppleik rétt fyrir úrslitakeppnina og að halda áfram að koma nýjum manni inn í þetta hjá okkur,” sagði Páll Axel.

Næsti leikur er eftir 10 daga og Páll Axel sagði að það væri gott að fá þessa pásu til þess að halda áfram að vinna í leik liðsins. ,,Við eigum langt í land með að ná liðinu okkar saman í eitthvert topp ástand,” sagði Páll Axel sem taldi lið sitt ekki vera með neitt sérstaklega breiðan hóp. ,,Það er mjög erfitt hjá okkur sem stendur þar sem við erum með þunnskipaðan hóp. Menn hafa verið að detta út vegna meiðsla og ef menn eru ekki að komast á æfingu út af einhverjum ástæðum þá náum við ekki 10 á æfingu. Það er ekki nógu gott rétt fyrir úrslitakeppnina en við vinnum úr þessu. Við erum með bein í nefinu.”

[email protected]

Mynd: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -