Þá eru vinkonurnar sameinaðar að nýju því Pálína María Gunnlaugsdóttir skrifaði í kvöld undir tveggja ára samning við Hauka. Pálína og Helena Sverrisdóttir ætluðu sér alltaf að leika saman aftur í úrvalsdeild kvenna en leiðir skildu þegar Helena hélt til náms í Bandaríkjunum. Nú eru þessir tveir fremstu kvennakörfuknattleiksmenn þjóðarinnar að snúa saman bökum í Schenkerhöllinni og eflaust margir sem búast við látum í Hafnarfjarðarliðinu á komandi tímabili.
Jóhanna Björk Sveinsdóttir skrifaði einnig í kvöld undir samning við Hauka en hún snýr nú aftur í raðir Hafnfirðinga eftir stutt stopp hjá Breiðablik. Haukar hafa gefið það opinberlega út að liðið ætli sér ekki að hefja næstu leiktíð með erlendan leikmann og því ljóst að þær Helena, Pálína og Jóhanna muni taka á sig mikla ábyrgð í liði Hauka. Þær verða þó ekki á flæðiskeri staddar enda gríðarlegur efniviður á ferðinni í Schenkerhöllinni.
Ef það var ekki nóg að bæta við Pálínu og Jóhönnu í kvöld þá er Ísfirðingurinn Eva Margrét Kristjánsdóttir einnig búin að semja við Hauka en hún gat ekki verið viðstödd undirskriftirnar í kvöld. Þá framlengdi Auður Íris Ólafsdóttir við Hauka en Auður, Helena og Jóhanna halda allar til Danmerkur í fyrramálið í æfingaferð með íslenska kvennalandsliðinu.
Þá hafa ungu leikmenn liðsins staðfest veru sína hjá félaginu á næsta tímabili en þær eru:
Þóra Kristín Jónsdóttir, Sólrún Inga Gísladóttir, Dýrfinna Arnardóttir, Rósa Björk Pétursdóttir, Hanna Þráinsdóttir, Magdalena Gísladóttir, Inga Rún Svansdóttir og Sylvía Rún Hálfdanardóttir.





