spot_img
HomeFréttirPálína: Erum í flottu formi

Pálína: Erum í flottu formi

Pálína María Gunnlaugsdóttir brosti út að eyrum eftir sigur Keflavíkur á KR í toppslag liðanna í vesturbænum. Keflavík vann öruggan 70-84 sigur á KR í uppgjöri toppliðanna þar sem Pálína var að daðra við þrennuna með 13 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar.
 
,,Við erum í flottu formi og megum þakka Fal fyrir það en við fórum öðruvísi að núna á undirbúningstímabilinu en síðustu ár. Við getum þessvegna verið kokhraustar og leikið svona þétta vörn í heilar 40 mínútur,“ sagði Pálína en það var góð vinnsla á vörn Keflavíkur allan leikinn og það skildi liðin að í kvöld. ,,Það er okkur efst í huga að spila góða vörn og það er hamrað á því við okkur.“
 
Aðeins byrjunarliðsmenn Keflavíkur skoruðu í leiknum, er það áhyggjuefni?
,,Það er ekki hættulegt því mjög margar hjá okkur geta komið inn og leyst af og þær verða betri með hverjum leiknum,“ sagði Pálína. KR lék aðeins á sex leikmönnum í kvöld, tók Keflavík þetta á breiddinni?
 
,,Það getur hafa verið munurinn, ég hugsaði einmitt um það í hálfleik að KR gæti ekki hlaupið með okkur svona í heilar 40 mínútur og þannig varð það,“ sagði Pálína sem hefur verið í hlutverki leikstjórnanda hjá Keflavík þetta tímabilið.
 
,,Ég hef fundið mig ágætlega í þessari stöðu, ég væri samt til í að spila einn leik í ,,tvistinum“ en mér finnst ég taka framförum og það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Í byrjun vantaði sjálfstraust í þetta hjá mér en mér finnst ég hafa staðið mig ágætlega og er bara ánægð með mig.“
 
Fréttir
- Auglýsing -