spot_img
HomeFréttirPacers gætu nýtt undanþágu vegna meiðsla George

Pacers gætu nýtt undanþágu vegna meiðsla George

Óvíst er hvort Paul George muni nokkuð leika með Indiana Pacers á næstu leiktíð eftir að hann fótbrotnaði illa í æfingaleik með bandaríska landsliðinu. Pacers hafa ekkert gefið enn upp um líklega tímasetningu á endurkomu hans, en ansi ólíklegt er að læknar liðsins muni hleypa honum aftur inn á völlinn fyrr en á næstu leiktíð. Kjarasamningur NBA deildarinnar býður upp á undanþágu fyrir lið í þessari stöðu.
 
Lið sem getur sýnt fram á að leikmaður þess muni ekki spila á komandi leiktíð getur sótt um undanþágu frá launaþakinu sem samsvarar helmingi árslauna leikmannsins eða $5,3 milljónir, hvort heldur sem er lægra. Í tilfelli George yrði þetta $5,3 milljónir þar sem hann er á hámarkssamningi og þénar um $16 milljónir á næstu leiktíð.
 
Indiana geta því annað hvort samið við leikmann á markaði með lausan samning til eins árs, hirt upp leikmann af waivers eða skipt fyrir leikmann á síðasta ári samnings, svo lengi sem launin séu undir $5,4 milljónum.
 
Nýti Pacers sér þessa undanþágu fara þeir samt sem áður yfir skattmörkin um $3,7 milljónir og vitað er að eigandi Pacers, Herb Simon hafi engan áhuga á að greiða skatt.  Það er því alls óvíst hvort Larry Bird, framkvæmdastjóri Pacers muni nýta þessa undanþágu. 
 
Indiana Pacers hafa verið á höttunum eftir Shawn Marion sem er með lausan samning. Hann er einnig með tilboð frá Cleveland Cavaliers en er óákveðinn enn.
Fréttir
- Auglýsing -