Flestir hefðu veðjað réttilega á sigur Snæfells fyrir leik kvöldsins, enda deila þeir nú efsta sæti Domino´s-deildarinnar með Grindvíkingum. KFÍ hefur hins vegar verið í botnbaráttu í allan vetur en eygja nú möguleika á að komast í úrslitakeppni ef allt gengur upp. Eins og alltaf bæði lið því með markmið og möguleika fyrir leik og ekkert annað að gera en gefa allt í botn.
Það gerðu liðin einmitt og fyrsti leikhluti var fjörugur og tiltölulega jafn. Snæfell byrjaði sterkt og náðu 6 stiga forystu (11-17) um miðjan leikhlutann. KFÍ gáfu sig ekki og með seiglu náðu þeir undirtökunum og munaði þar mest um frábæra byrjun Tyrone Bradshaw sem var með 9 stig. Annar leikhluti er greinilega eitthvað vandamál fyrir leikmenn KFÍ því líkt og í leik þeirra við Keflavík í síðustu viku, voru þeir alveg heillum horfnir í honum. Snæfellingar röðuðu inn auðveldum körfum og náðu góðri forystu fyrir hálfleik, 42-51. Félagarnir Jón Ólafur og Sigurður Þorvaldsson fóru algerlega á kostum í fyrri hálfleik og skoruðu 40 af stigum Snæfells. Augljóst að ef KFÍ ætlaði sér einhverja hluti í þessum leik þyrfti að einbeita sér að þessum mönnum það sem eftir lifði leiks.
Leikmenn og stuðningsfólk KFÍ mættu til þriðja leikhluta bjartsýn en það tók lítið betra við. Snæfell hafði örugg tök á leiknum og voru ekkert að fara að gera annað en sækja tvö örugg stig, að minnsta kosti leit allt út fyrir það þegar staðan var orðin 65-79 og aðeins síðasti leikhluti eftir. Þá urði algjör umskipti í leiknum og heimamenn léku eins og sá sem valdið hefur. Þessi mikla breyting varð eftir eitt af mörgum vafaatriðum leiksins, þegar Sveinn Arnar fékk fjórðu villu sína á fyrstu mínutu leikhlutans og var að ganga af velli. Leið hans lá þá yfir Damier Pitts, sem lá í gólfinu eftir viðskipti þeirra og rakst hællinn á skó Sveins í höfuð hins liggjandi manns. Það var örugglega óviljaverk, að minnsta kosti mátu dómarar leiksins það þannig, hafi einhver þeirra þriggja séð það á annað borð. Það var samt greinilegt að þetta kveikti einhvern neista í bakverðinum sem svaraði með tveimur vítum og skoraði svo 17 stig samtals í þessum leikhluta. Síðasta skotið var ótrúlega kjarkað þriggja stiga skot sem tryggði KFÍ þriggja stiga forystu 94-91 og Snæfell hafði 1.3 sekúndu til þess að jafna leikinn. Áhorfendur á Jakanum fögnuði ógurlega og flestir töldi heimasigur innsiglaðan. Ingi tók leikhlé og hafi skot Damiers verið kjarkað þá var næsta skot Jay Threatt ógnvænlega fífldjarft, en það fór af spjaldinu og ofan í! Snæfell hafði jafnað á flautukörfu og framlenging blasti við.
Bæði lið höfðu ratað í nokkur villuvandræði og virtist sem leikmenn beggja liða ættu erfitt með að finna línuna sem dæmt var eftir. Reyndar ekkert skrítið að leikmenn safni villum í framlengdum hörkuleik og þá reynir á hina svokölluðu dýpt á varamannabekknum. Þar höfðu gestirnir nokkra yfirburði sem þeir nýttu til hins ýtrasta þrátt fyrir hetjulega baráttu heimamanna, sem höfðu misst þrjá byrjunarliðsmenn útaf með fimm villur áður en leik lauk. Snæfell gerðu vel að ná þessum sigri og fagna honum örugglega vel og lengi.
Mörgum gestum varð tíðrætt um hvort ekki hefði verið rétt að dómararnir hefðu nýtt sér ákvæði í reglum um að skoða upptöku leiksins, þegar kom að þessu lokaskoti Snæfells undir lok fjórða leikhluta. Virtist mörgum sem leikklukkan hefði ekki verið ræst eftir innkastið og hvort þá hefði ekki átt að endurtaka það? Sambærileg atvik með leikklukkuna koma oft upp og dómarar grípa þar iðulega inn í og leiðrétt þar með mistök ritaraborðs. Dómararnir mátu það þó greinilega svo að þess þyrfti ekki og það eru þeir sem ráða för í þessum málum sem betur fer. Það hálpar auðvitað að öryggi þeirra er mun meira eftir að við fengum þriðja dómarann í leikinn. Þessi leikur hafði mikið skemmtanagildi jafnt fyrir áhorfendur, dómara og leikmenn, og einmitt svona leikir sem lengi lifa í minningu okkar sem fáum að upplifa þá saman.
Sigurður Þorvaldsson átti stórleik hjá Snæfelli og er með banvænt skot fyrir utan þriggja stiga línuna. Það er svo ekkert nýtt að Jón Ólafur stendur fyrir sínu. Ryan var sterkur á báðum endum vallarins, og hann er greinilega líka raddsterkur enda lét hann vel heyra í sér þegar hann ósáttur við gang mála.
Damier var með enn einn stórleikinn og það þrátt fyrir að fá verulega athygli varnarmanna Snæfells. Mirko er baneitraður og með ótrulega gott lag að finna körfuna þegar hann er inni í teig. Kristján Pétur átti ágætis leik og var með 62% (5/8) þriggja stiga nýtingu. Tyrone átti líka góðan leik en Hlynur Hreinsson átti líklega sinn besta leik í vetur og stóð vel fyrir sínu þegar hann skilaði mikilvægum 28 minútum í kvöld.
KFÍ-Snæfell 106-110 (26-21, 16-30, 23-28, 29-15, 12-16)
KFÍ: Damier Erik Pitts 38/10 stoðsendingar, Mirko Stefán Virijevic 25/12 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 17/4 fráköst, Tyrone Lorenzo Bradshaw 15/11 fráköst, Hlynur Hreinsson 11/4 fráköst, Jón Hrafn Baldvinsson 0, Óskar Kristjánsson 0, Björgvin Snævar Sigurðsson 0, Haukur Hreinsson 0, Hákon Ari Halldórsson 0, Samuel Toluwase 0.
KFÍ: Damier Erik Pitts 38/10 stoðsendingar, Mirko Stefán Virijevic 25/12 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 17/4 fráköst, Tyrone Lorenzo Bradshaw 15/11 fráköst, Hlynur Hreinsson 11/4 fráköst, Jón Hrafn Baldvinsson 0, Óskar Kristjánsson 0, Björgvin Snævar Sigurðsson 0, Haukur Hreinsson 0, Hákon Ari Halldórsson 0, Samuel Toluwase 0.
Snæfell: Sigurður Á. Þorvaldsson 34/12 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 22/8 fráköst/5 stoðsendingar, Ryan Amaroso 19/17 fráköst, Jay Threatt 16/5 stoðsendingar, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 10/6 fráköst, Hafþór Ingi Gunnarsson 5, Stefán Karel Torfason 4, Sveinn Arnar Davíðsson 0.
Dómarar: Björgvin Rúnarsson, Steinar Orri Sigurðsson og Aðaslteinn Hrafnkelsson.
Texti: Helgi Kr. Sigmundsson
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson



