spot_img
HomeFréttirÓtrúlegur endasprettur Þórs gerði útslagið

Ótrúlegur endasprettur Þórs gerði útslagið

Þór frá Þorlákshöfn komst yfir í einvígi Hauka og Þórs í kvöld þegar að liðin mættust í fyrsta leik á Ásvöllum. Lokatölur urðu 55-56 og var það ótrúlegur endasprettur gestanna sem gerði það að verkum að þeir unnu upp 18 stiga forskot Hauka , komust einu sinni yfir í leiknum og innbyrgðu sigur á heimavelli Hauka sem hefur fram að þessu aðeins tapað einum leik á Ásvöllum í vetur.
Byrjunarlið Hauka: Óskar Ingi Magnússon, Semaj Inge, Helgi Björn Einarsson, Davíð Páll Hermannsson og Sævar Ingi Haraldsson.
 
Bryjunarlið Þórs: Grétar Erlendsson, Magnús Pálsson, Richard Field, Baldur Ragnarsson og Valur Sigurðsson.
 
Leikurinn fór hægt af stað á meðan bæði lið voru að kanna andstæðingin. Fyrstu sóknir beggja liða fjöruðu út í tapaðan bolta. Þegar tvær mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta kom fyrsta karfan og það var Helgi Björn Einarsson, Haukum, sem gerði það. Haukar unnu boltan strax af Þórsurum og skoruðu úr hraðaupphlaupi og komust í 4-0. Grétar Erlendsson minnkaði muninn í 4-2 en stemningin lifði með Haukaliðinu sem setti niður átta stig gegn tveimur Þórsara á þessum kafla og staðan orðin 12-4. Þór spilaði svæðisvörn fram á fimmtu mínútu. Fátt hafði gengið hjá í vörn Þórsara og tóku þeir leikhlé. Eftir leikhléið setti Óskar Magnússon niður þriggja stiga körfu og staðan orðin 15-4 fyrir Hauka.
 
Vörn Hauka var þétt í leikhlutanum og til að mynda skoruðu Þórsarar ekki nema 9 stig í fyrsta leikhuta. Haukar settu 19 og því endaði hann með 10 stiga forystu Hauka 19-9.
 
Það verður að segjast að varnarleikur beggja liða var í fyrirhúmi í upphafi annars leikhluta. Aðeins fjögur stig komu upp á töfluna á fyrstu fjórum mínútum leikhlutans og voru þau öll Þórs. Staðan var 19-13 þegar Ingvar Guðjónsson setti niður þrist og breytti stöðunni í 22-13.
 
Óskar Magnússon leikmaður Hauka kom inná völlinn aftur og gerði mikinn usla í vörn Þórs. Hann setti niður tvær þriggja stiga körfur í röð og stal svo boltanum í næstu sókn á eftir. Óskar reyndi þriggja stiga skot og var ekki langt frá því að hitta. Haukar keyrðu muninn í 13 stig og staðan 28-15 þegar rétt tæpar fjórar mínútur voru til hálfleiks. Þjálfari Þórs tók leikhlé og breytti vörn Þórs í maður á mann. Það virtist henta Haukaliðinu vel og skoruðu þeir 10 stig gegn fimm Þórsara og leiddu því heimamenn í hálfleik með 18 stigum, 38-20.
 
Óskar Ingi Magnússon var stighæstur Hauka í hálfleik með 12 stig öll úr þriggja stiga skotum og hjá Þór var Grétar Erlendsson með 9 stig og 5 fráköst.
 
Leikmenn Þórs komu mun beittari til leiks í upphafi seinni hálfleiks. Hver karfan af fætur annarri leit dagsins ljós hjá þeim og smátt og smátt minnkuðu þeir muninn. Valur Sigurðsson setti niður þrist fyrir Þórsara og minnkaði muninn í 13 stig og Haukar tóku leikhlé. Það tók Haukaliðið rúmar sex mínútur að skora sína aðra körfu og höfðu þ.a.l. skorað fjögur stig gegn 10 á þessum kafla.
 
Munurinn var orðinn 10 stig þegar rúm mínúta var eftir af leikhlutanum og leikhlé var tekið. Haukar stilltu upp lágvöxnu liði gegn svæðisvörn gestanna en það breytti litlu og stemningin var öll Þórs meginn. Valur Sigurðsson setti niður þrist fyrir Þór og minnkaði muninn í sjö stig og staðan því 44-37 þegar farið var inn í seinasta leikhlutann.
 
Óskar Ingi Magnússon opnaði stigareikningin fyrir Hauka með þriggja stiga körfu, hans fimmtu og jók muninn í 10 stig. Þórsarar héldu áfram að berjast eins og þeir áttu lífið að leysa og voru liðsmenn Þórs duglegir að finna Grétar Erlendsson sem setti niður nokkrar auðveldar körfur og minnkaði muninn í sex stig.
 
Haukaliðið gerði sig sekt um mistök á þessum sama kafla og virtist vörn þeirra ekki jafn öflug og hún var í fyrri hálfleiknum. Haukavörnin átti fá svör við stórleik Grétars og minnkaði hann muninn enn meira fyrir gestina. Staðan var 49-45 þegar Grétar fór á línuna en og klikkaði. Richard Fields náði frákastinu og gaf á Grétar sem fór aftur á línuna og setti niður annað skotið og minnkaði muninn í þrjú stig, 49-46.
 
Spennan var orðin gífurleg á lokamínútum leiksins og ljóst að sigurinn gat lent báðu megin. Þórsarar voru búnir að heigja hetjulega baráttu og vinna upp 18 stiga forskot Hauka og voru langt því frá hættir að berjast. Þeir skutluðu sér á hvern bolta og voru að frákasta mun betur en Haukaliðið. Ekkert gekk upp hjá heimamönnum og var eins og lok væri komið á körfu Þórsara.
 
Helgi Einarsson skorði góða körfu fyrir Hauka og kom þeim í fimm stiga forskot, 53-48 og innan við tvær mínútur voru eftir.
 
Þegar ein mínúta var eftir minnkaði Grétar Erlendsson muninn í tvö stig og Semaj Inge skoraði fyrir Hauka. Þórsarar héldu til sóknar settu niður þrist og minnkuðu muninn í eitt stig 55-54 þegar 40 sekúndur voru eftir af leiknum. Þegar 19 sekúndur voru eftir var dæmd villa á Óskar Magnússon þegar hann og Richard Fields skullu saman eftir að vera að berjast um boltann. Richard lág óvígur eftir og var skipt útaf og var borinn af velli á börum. Inná í hans stað kom Ari Gylfason sem fór á vítalínuna og svellkaldur setti hann niður bæði vítin og kom Þórsurum yfir í fyrsta skiptið í leiknum. Haukar héldu til sóknar en skot Davíð Hermannssonar fór ekki ofaní og gestirnir fögnuðu eins stigs sigri, 55-56, og leiða því einvígið 1-0.
 
Dómarar leiksins þeir Kristinn Óskarsson og Davíð Hreiðarsson voru með góðar gætur á leiknum og stigu vart feilspor.
 
Stigahæstur í liði Þórs var Grétar Erlendsson sem var þeirra langbesti maður með 25 stig og 11 fráköst. Honum næstur var Magnús Pálsson með 14 stig.
 
Hjá Haukum var Óskar Magnússon með 15 stig, allt úr þriggja stiga skotum, og þeir Helgi Björn Einarsson og Semaj Inge voru með 11.
 
Leikurinn var hin prýðilegasta skemmtun og var mikil stemning í húsinu hjá þeim fjölmörgu áhorfendum sem gerðu sér leið í Hafnarfjörðinn. Stuðningsmenn beggja liða lömdu sín lið áfram með drumbuslætti og var umgjörð leiksins hin ágætasta. Haukar eiga án efa best klædda mopparann og sjaldan sem að maður í jakkafötum þurkar upp svita á dansgólfinu.
 
Næsti leikur liðanna er á mánudaginn kl. 19:15 í Þorlákshöfn.

Ljósmyndasafn frá leiknum eftir Hjalta Vignis 

Fréttir
- Auglýsing -