spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2025Ótrúlega svekkjandi tap í Katowice

Ótrúlega svekkjandi tap í Katowice

Ísland tapaði fyrir Belgíu í dag í öðrum leik sínum á lokamóti EuroBasket í Katowice í Póllandi, 64-71. Ísland því enn án sigurs eftir fyrstu tvo leiki lokamótsins þetta árið.

Fyrir leik

Sé litið til síðustu ára hefur Ísland ekki oft leikið gegn Belgíu. Það þarf þó ekki að fara ýkja langt aftur til þess að skoða einhverjar viðureignir liðanna tveggja. Á árunum 2016 til 2019 mættust liðin í fjögur skipti í undankeppnum EuroBasket og hafði Belgía sigur í þremur leikjum.

Bæði lið höfðu tapað fyrsta leik þessa lokamóts í Póllandi. Ísland laut í lægra haldi gegn Ísrael á meðan Belgía tapaði fyrir Frakklandi.

Byrjunarlið Íslands

Martin Hermannsson, Elvar Már Friðriksson, Hilmar Smári Henningsson, Kristinn Pálsson og Tryggvi Snær Hlinason.

Gangur leiks

Leikurinn fór fjörlega af stað. Lítið virtist um varnir og skiptust liðin á körfum framan af fyrsta fjórðung. Tryggvi Snær stórbrotinn þessar fyrstu mínútur fyrir Ísland, sex stig, fjögur fráköst, 2 stolnir boltar, varið skot og frábær varnarlega í fyrsta leikhlutanum sem endar 21-17 fyrir Ísland.

Í öðrum leikhlutanum nær Ísland að komast í nauma sex stiga forystu, 25-19, en fá þá tvo þrista frá Belgíu í andlitið sem jafna leikinn aftur. Íslenska liðið gerir vel undir lok fyrri hálfleiksins og fara þeir með fjögurra stiga forskot til búningsherbergja í hálfleik, 36-32.

Tryggvi Snær Hlinason fór fyrir íslenska liðinu í fyrri hálfleiknum, skilað 10 stigum, 7 fráköstum, 2 stolnum boltum og 2 vörðum skotum á um 18 mínútum spiluðum. Honum næstur var Elvar Már Friðriksson með 10 stig.

Seinni hálfleikurinn fór öllu hægar af stað en sá fyrri. Ísland virtist vera með tak á leiknum, en þeir náðu þó lítið að setja stig á körfuna. Undir lok þess þriðja nær liðið þó í nokkur góð stopp sem kveikja í íslenskum stuðningsmönnum. Fá nokkrar körfur, en munurinn er þó aðeins sex stig fyrir lokaleikhlutann, 52-46.

Íslenska liðið nær áfram að vera á undan inn í fjórða leikhlutann. Eru áfram að fá góð stopp og keyra í bakið á Belgíu til þess að skapa sér stig. Þurfa virkilega að hafa fyrir því að vera á undan á lokamínútunum. Missa nauma forystu sína niður á lokamínútunum og Belgía kemst yfir með tveimur vítum þegar mínúta er eftir, 62-63. Fá svo aðra körfu á sig þegar um 25 sekúndur eru eftir og eru 3 undir, 62-65. Tryggvi setur tvö víti og er munurinn 1 stig, 64-65, þegar 16 sekúndur eru eftir. Belgía hittir vel úr vítum sínum á lokasekúndunum og íslenska liðið fer illa að ráði sínu, niðurstaðan, 64-71 ósigur.

Kjarninn

Íslenska liðið gerði gífurlega vel í 38 mínútur í leiknum. Ekki aðeins var Tryggvi Snær Hlinason að sýna allar sínar bestu hliðar í dag, þá virtust aðrir leikmenn, nánast allir hinir bara, einnig á deginum sínum.

Eru 7 stigum yfir þegar aðeins nokkrar mínútur voru eftir. Frusu gjörsamlega sóknarlega þegar mest á reyndi. Aðeins tvö stig síðustu fimm mínúturnar. Hægt að segja að þeir hafi kastað þessum frá sér, eða eitthvað, svo nálægt því, en gekk ekki.

Atkvæðamestir

Það er óhætt að segja að Tryggvi Snær Hlinason hafi sýnt úr hverju hann er gerður í dag. Á báðum endum vallarins var hann frábær, en hann skilaði 20 stigum, 10 fráköstum, 2 stolnum boltum og 5 vörðum skotum. Honum næstir voru Martin Hermannsson með 12 stig, 4 fráköst, 8 stoðsendingar og Elvar Már Friðriksson með 13 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar.

Hvað svo?

Næsti leikur Íslands á mótinu er gegn heimamönnum í Póllandi annað kvöld kl. 18:30 að íslenskum tíma.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Blaðamannafundur

Fréttir
- Auglýsing -