spot_img
HomeFréttirÓtrúleg endurkoma Grindavík í háspennu leik gegn ÍR

Ótrúleg endurkoma Grindavík í háspennu leik gegn ÍR

 

Síðustu fimm mínúturnar í leik Grindavíkur og ÍR í kvöld voru ekki fyrir hjartveika, en spennustigið var stillt á 11 undir lokin eftir alveg hreint ótrúlega endurkomu Grindavíkur. Grindvíkingar virðast vera að finna taktinn en þeir lönduðu í kvöld öðrum sigrinum í röð. Tap hefði sennilega farið illa með andlegu hliðina en í staðinn ættu þeir að fá góðan meðvind fyrir lokasprettinn í deildinni. ÍR aftur á móti missti dýrmæt stig í baráttunni um deildarmeistaratitilinn, en þeir eiga leik gegn toppliði Hauka í næstu umferð.

 

Gangur leiksins

 

Leikurinn fór nokkuð jafnt af stað en ÍR-ingarnar urðu fljótlega þessu fræga skrefi á undan. Þeir enduðu 5 stigum yfir eftir 1. leikhluta, 10 eftir þann næsta og voru komnir með 11 stiga forskot fyrir loka leikhlutann. Í hvert skipti sem Grindvíkingar virtust ætla að gera áhlaup svöruðu ÍR-ingar og börðu Grindvíkinga jafnharðan niður. Stundum jafnvel nokkuð bókstaflega og þótti sumum halla töluvert á Grindvíkinga í dómgæslunni í þessum leik. 

 

Mótlætið virtist ætla að brjóta Grindvíkinga niður, og það hefði sennilega verið auðvelt fyrir þá að brotna algjörlega eftir 3. leikhluta, en þá gerðist eitthvað. Raunar gerðist eitthvað undir lok þriðja leikhluta, sem virtist kveikja í heimamönnum.

 

Þáttaskil

 

Grindvíkingar gerðu heiðarlega tilraun til að minnka forskotið í þriðja leikhluta. Þeir Davíð Ingi Bustion og Ómar Örn Sævarsson komu inná með mikla baráttu varnarmegin sem skilaði sér í stoppum sem aftur leiddu af sér körfur. Grindvík minnkaði forskotið í 6 stig undir lok leikhlutans en ÍR svöruðu um hæl og fór eflaust vongóðir inn í lokaleikhlutann með 11 stiga forskot. En vonarneistinn í brjósti Grindvíkinga var kviknaður og varð snögglega að stóru báli. Grindvíkingar hófu fjórða leikhlutann af miklum krafti, og þá ekki síst varnarmegin. Varnarleikurinn hafði raunar verið algjör hörmung framan af leik en trekk í trekk fengu ÍR-ingar að brokka óhindrað upp að körfu Grindvíkinga. 

 

Allt annað var upp á teningnum í 4. leikhluta og á rúmum þremur mínútum breyttu þeir heimamenn stöðunni úr 61-72 í 73-73, og auðvitað var það sjálfur J'Nathan Bullock sem jafnaði leikinn með kröftugri troðslu eftir að hafa komist inn í sendingu Matthíasar Orra. Eftir á að hyggja var þessi röð atburða, stolni boltinn og troðslan augljóst merki frá æðri máttarvöldum að leikurinn væri nú í höndum Grindvíkinga.

 

Háspenna/lífshætta

 

Í stöðunni 73-73 var ennþá alltof mikið eftir af leiknum og hélt spennustigið í leiknum áhorfendum í heljargreipum allt til enda. Mörg áhugaverð atvik litu dagsins ljós á þessum mínútum sem hefðu mögulega getað snúið leiknum, t.d. þegar téður Bullock var hamraður niður í sniðskoti en engin villa var dæmd. Þá tók Sveinbjörn Claessen uppá því að skalla Ingva Þór Guðmundsson. Snöggreiddist Ólafur Ólafsson við þessa tilburði og ætlaði að hjóla í Sveinbjörn en til allrar lukku fyrir Grindvíkinga var Ólafur með 39° hita og sá það í hendi sér að það væri sennilega ekki vænlegt til árangurs að heilsa mönnum að sjómannasið í því ástandi.

 

 

Grindvíkingar sýndu mikinn karakter á þessum lokamínútum og létu skapið ekki hlaupa með sig í gönur né mótlætið brjóta sig. Fyrr í vetur hefði þessi leikur mögulega spilast allt öðruvísi fyrir Grindavík. Þeir virðast hægt og örugglega vera að finna rétta taktinn, eftir að hafa skipt bæði um erlendan leikmann og breytt um áherslur í sóknarleiknum.

 

Hetjan

 

Þegar Grindvíkingar sömdu við J'Nathan Bullock í annað sinn vissu þeir vel hvað þeir væru að fá fyrir peninginn. ÍR-ingarnar vissu það sennilega líka enda setti Bullock 51 stig á þá hér um árið og virtist hafa lítið fyrir því. Það er nefnilega málið með Bullock. Hann er með ótrúlega mjúkt skot fyrir jafn stóran mann og hann er, og í kvöld lét hann körfunum rigna. 32 stig og 69% skotnýting, og bætti svo við 10 fráköstum. 

 

Hvað þýða úrslitin?

 

Grindvíkingar unnu í kvöld sinn annan leik í röð, og eru í 6. sæti með jafn mörg stig og Njarðvík sem situr í 5. sætinu. Þeir eiga tvo leiki eftir gegn liðum í neðri hluta deildarinnar, Val og Þór Ak, og ættu því ef þeir halda rétt á spilunum að geta siglt inn í úrslitakeppnina í bullandi uppsveiflu. ÍR-ingar eru áfram í 2. sæti en gætu misst sætið til Tindastóls á morgun. Þeir eiga enn tölfræðilega möguleika á því að nappa toppsætinu en þeir þurfa þá að vinna bæði Keflvík og Hauka og þurfa þar fyrir utan að vinna Haukana með 11 stigum.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun, myndir og viðtöl: Siggeir F. Ævarsson

Fréttir
- Auglýsing -