KR-ingar biðu lægri hlut gegn Beijing Aoshen í fyrri leik liðanna í Chengdu í Kína í dag, lokatölur 101 – 73. Leikurinn var í beinni útsendingu á KR-TV. KR-ingar léku mjög vel framan af en 48 mínútna leikur og ferðaþreyta sögðu til sín í seinni hálfleik sem kínverska liðið vann með 20 stigum. Stigahæstur hjá KR var Tommy Johnson með 22 stig. Þetta kemur fram á www.kr.is/karfa
Leikurinn byrjaði vel fyrir KR-inga, þeir skoruðu 5 fyrstu stigin í leiknum og leiddu 12-5 áður en heimamenn jöfnuðu í 12-12. Brynjar og Tommy sáu um að skora fyrstu 21 stigin fyrir KR en þeir félagar voru að hitta vel fyrir utan. Í stöðunni 25-21 fyrir KR átti Finnur Atli frábæra "backdoor" sendingu á Semaj Inge sem tók á loft fyrir utan teig og tróð yfir tvo leikmenn heimamanna við mikinn fögnuðu áhorfenda. Aoshen átti hins vegar góðan lokasprett og staðan 30-30 eftir fyrsta leikhluta.