spot_img
HomeFréttirÓskar Ó. Jónsson: Erfitt að spila gegn sjálflýsandi leikmönnum FSu

Óskar Ó. Jónsson: Erfitt að spila gegn sjálflýsandi leikmönnum FSu

9:30

{mosimage}

Nú höldum við áfram að skoða hvað hákarlarnir hafa að segja um úrslitakeppnina í 1. deild. Við minnum á að þeir svöruðu spurningunum fyrir síðustu umfreðina í deildinni sem fór fram á föstudag. Flestir sem hafa farið á körfuboltaleik undanfarin ár, sama í hvaða deild það hefur verið eða í hvaða aldursflokki hafa eflaust séð Óskar Ófeig Jónsson en kappinn er duglegur að taka tölfræði á leikjum auk þess sem hann er blaðamaður á Fréttablaðinu.

Hvernig lýst þér á úrslitakeppnina í 1. deild karla?
Úrslitakeppnin verður örugglega mjög spennandi í ár. Keppnin í fyrra er enn í fersku minni hjá manni þar sem Stjörnumenn voru síðasta liðið inn í hana en enduðu síðan á því að vinna bæði einvígin með því að vinna oddaleik á útivelli. Þessi breyting á deildinni hefur heppnast mjög vel en nú snýst þetta bara um að vera í besta forminu og með bestu stemmninguna á réttum tíma. Það verður fróðlegt að sjá hvaða lið fylgir Breiðabliki upp en fyrirfram finnst manni þrjú lið af fjórum eiga ágæta möguleika á að komast upp í Iceland Express deild karla.

Hvaða lið fer upp?
FSu er með heimavallarréttinn út úrslitakeppnina í fyrsta sinn og það kæmi mér ekki á óvart ef Brynjar Karl væri farinn að þjálfa í Iceland Express deild karla næsta vetur. FSu hefur verið að spila gríðarlega vel upp á síðkastið og endurkoma Árna Ragnarsson úr meiðslum og innkoma Sævar Sigurmundssonar eru síðustu púslin inn í mjög gott lið og ég tel það langlíklegast að Suðurland eigi áfram lið í efstu deild. Bæði Ármann/Þróttur og Valur eru líka til alls líkleg en mér finnst samt meiri ósvissa vera í kringum þau og það þurfa fleiri hlutir að ganga upp ætli þau sér upp í Iceland Express deildina.

Er tími FSu kominn?
FSu þarf bara að vinna heimaleiki sína til þess að fara upp og liðið spilar hvergi betur en í Iðunni þar sem liðið hefur unnið hin þrjú liðin í úrslitakeppninni með 22,3 stigum að meðaltali í leik í vetur. FSu hefur líka haldið Val, Ármanni/Þrótti og Haukum í aðeins 68,0 stigum í leik í Iðunni á tímabilinu sem er frábær tölfræði. FSu hefur þetta að mínu mati í sínum höndum, liðið er með góða breidd og geta því spilað sinn aggressíva körfubolta sem reynist flestum liðum banabiti. Það er líka annað en að segja það að spila gegn sjálflýsandi leikmönnum FSu undir kösturunum í Iðunni og hætt við því að nokkrir mótherjar fái ofbirtu í augun.  

Verða Valsarar að bíða í 1. deild í eitt ár enn?
Þetta hefur verið erfitt tímabil fyrir Valsmenn, meiðslin hans Roberts Hodgson tóku sinn toll framan af tímabili og því varð liðið ekki fullmótað fyrr en á nýju ári. Valsliðið hefur spilað mun betur eftir áramót en vantar enn meiri stöðugleika til þess að fara alla leið að mínu mati. Það er líka mikil pressa á liðinu að fara upp því Valsmenn hafa verið í úrslitakeppninni undanfarin þrjú ár og tvisvar klikkað með heimavallarrétt í úrslitunum. Ég held að Rob þurfi eitt ár í viðbót til þess að koma Val aftur upp í úrvalsdeildina en líkt og FSu og Ármann/Þróttur þá eiga Valsmenn  samt alveg góða möguleika spili liðið sinn besta leik í úrslitakeppninni.

Mun Pétur Ingvarsson leika sama leik og hann gerði með Hamar á sínum tíma?  
Ármann/Þróttur er lið með mikla reynslu og það er frábært fyrir liðið að fá George Byrd inn fyrir úrslitakeppnina. Ég á samt eftir að sjá hvar liðið stendur hvað varðar formið því það eru spilaðir margir leikir á stuttum tíma í úrslitakeppninni. Ármann/Þróttur getur samt vel orðið "Stjörnulið" þessarrarar úrslitakeppni en ég spái þeim samt ekki upp því ég held að liðið haldi ekki út gegn frískum og hröðum liðum eins og FSu eða Val. Það er samt ekkert grín að ráða við Byrd inn í teig nái hann sér á strik og þetta gæti því alveg smollið í Laugardalnum takist Ármanni/Þrótti að hægja á leikjunum sem myndi þá þýða að úrvalsdeildin yrði spiluð aftur í Höllinnni næsta vetur.

Komast Haukar upp á erlends leikmanns?
Haukarnir eru búnir að vinna sinn sigur með því að komast í úrslitakeppnina án erlends leikmanns og hafa nú allt að vinna og engu að tapa. Ungu strákarnir hafa fengið frábæra reynslu þökk sé framtíðarsýn Hennings Henningssonar og þessi úrslitakeppni mun væntanlega bætast í þann reynslubanka. Úrvalsdeildin þarf að samt að bíða enn um sinn en Haukarnir eru á réttri leið í að búa til framtíðarlið á Ásvöllum.

[email protected]

Mynd: www.karfan.is

 

Fréttir
- Auglýsing -