spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2027Ósigur í Ólafssal í fyrsta leik undankeppninnar

Ósigur í Ólafssal í fyrsta leik undankeppninnar

Serbía lagði Ísland nokkuð örugglega í kvöld í Ólafssal í fyrsta leik liðanna í undankeppni EuroBasket 2027, 59-84.

Fyrir leik

Ísland hefur ekki verið með Serbíu í undankeppnum síðustu móta, Evrópu- eða heimsmeistara. Því hafa liðin tvö aldrei leikið gegn hvoru öðru. Aðeins hægt að líta til yngri liða, en undir 20 ára lið kvenna hefur í fimm skipti leikið gegn Serbíu síðan 2017. Þar hefur Serbía unnið alla leikina, nú síðast í sumar í A deild Evrópumótsins í Portúgal, 90-76.

Sé litið til heimslista FIBA er Serbía í 10. sætinu, en Ísland í 66. sæti. Því alveg vitað fyrirfram að mögulega yrði þetta brekka fyrir íslenska liðið.

Góð mæting var í Ólafssal á leikinn, en vel hafði verið auglýst að Bónus myndi bjóða öllum á hann. Fullt var í öll sæti og þá var einnig staðið allan hringinn í kringum völlinn.

Byrjunarlið Íslands

Ásta Júlía Grímsdóttir, Þóra Kristín Jónsdóttir, Danielle Rodriguez, Kolbrún María Ármannsdóttir og Sara Rún Hinriksdóttir.

Gangur leiks

Serbneska liðið er með góð tök á leiknum í fyrsta fjórðungnum. Hefja leikinn á snöggu 0-6 áhlaupi og halda því forskoti meira og minna. Á síðustu tveimur mínútum fjórðungsins ná þær þó aðeins að bæta í og er munurinn 12 stig að þeim fyrsta loknum, 14-26.

Íslenska liðið virðist stefna í nokkur villuvandræði í leiknum í öðrum leikhlutanum, en um hann miðjan fær Danielle Rodriguez sína þriðju villu og þarf hún því að sitja á bekknum út hálfleikinn. Svipaða sögu má segja af Rebekku Rut Steingrímsdóttur, sem einnig fékk sína þriðju í öðrum fjórðungnum, en þá voru nokkrir aðrir leikmenn komnir með tvær villur í hálfleik.

Ísland á í þónokkru brasi undir lok fyrri hálfleiksins. Ná á löngum köflum ekki að koma stigum á töfluna og þá virðist serbneska liðið oftar en ekki spila þær sundur og saman á hinum enda vallarins. Munurinn 18 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 29-47.

Stigahæstar fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum eru Sara Rún Hinriksdóttir með 8 stig og Þóra Kristín Jónsdóttir og Isabella Ósk Sigurðardóttir eru með 6 stig hvor.

Serbía klárar leikinn í upphafi seinni hálfleiksins. Komast mest 35 stigum yfir í þriðja fjórðungnum, en eru 34 yfir fyrir lokaleikhlutann, 38-72.

Í þeim fjórða nær Ísland að koma með smá orku, baráttu og fá nokkur skot til að detta fyrir sig. Koma því í veg fyrir að serbneska liðið nái að halda áfram að bæta í. Mikið til má þar þakka gífurlega góðum innkomum Sigrúnar Ólafsdóttur og Rebekku Rutar Steingrímsdóttur.

Þessi aukni kraftur íslenska liðsins kemur ekki í veg fyrir að lokum er sigur Serbíu gífurlega öruggur. Niðurstaðan ósigur, 59-84.

Kjarninn

Það er óhætt að segja að íslenska liðið hafi verið númeri of lítið fyrir andstæðing dagsins. Hvort sem um er að ræða vaxtaverki sem fylgja því að nýr þjálfari taki við liðinu, að alltof langt sé síðan liðið kom saman síðast, eða að breyting á leikmannahópi liðsins hafi haft þau áhrif, þá var liðið allavegana langt frá því að sýna það sem þær gerðu svo vel í síðustu keppni gegn sterkum þjóðum eins og Tyrklandi og Rúmeníu.

Öllu eðlilegri vangavelta kannski sú að Serbía er og hefur verið eitt af 10 bestu liðum heims undanfarin ár á meðan Ísland er, samkvæmt styrkleikalista FIBA í sætum á bilinu 60 til 70. Því einfaldlega við ofjarl að etja.

Atkvæðamestar

Atkvæðamestar í liði Íslands í leiknum voru Sara Rún Hinriksdóttir með 18 stig, 4 fráköst, Rebekka Rut Steingrímsdóttir með 7 stig, 2 fráköst, 5 stoðsendingar og Danielle Rodriguez með 8 stig, 5 fráköst, 3 stoðsendingar og 5 stolna bolta.

Hvað svo?

Við tekur ferðalag fyrir íslenska liðið á föstudag, en seinni leikur þessa fyrsta glugga keppninnar er komandi þriðjudag 18. nóvember gegn Portúgal ytra.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatansson)

Viðtöl væntanleg

Fréttir
- Auglýsing -