spot_img
HomeFréttirÖrvar: Viðbjóðslega súrt

Örvar: Viðbjóðslega súrt

,,Þetta er viðbjóðslega súrt og sérstaklega eftir svona leik enda fannst mér við alveg eiga sigurinn skilinn. Hlutirnir duttu bara ekki hjá okkur og ég er mjög ósáttur með vítanýtinguna en við reyndum eins og við gátum og þetta er bara ótrúlega svekkjandi," sagði Örvar Þór Kristjánsson þjálfari Fjölnis í samtali við Karfan.is eftir leik Fjölnis og Keflavíkur í kvöld þar sem Keflvíkingar unnu í framlengdum ,,naglbít."
,,Við hvikuðum aldrei frá okkar markmiðum í vetur sem voru að komast í úrslitakeppnina og höfðum alveg liðið til þess en lendum í erfiðum meiðslum og þurftum að bregðast við því. Þannig er þetta nú bara en mér finnst við eiga lið til að vera í úrslitakeppninni."
 
Þetta voru ekki einhver meiðsli, við erum að tala um Árna Ragnarsson, það er blóðtaka af dýrari gerðinni fyrir ungt lið Fjölnis ekki satt?
 
,,Jú vissulega, en strákarnir sem fylltu hans skarð hafa gert það frábærlega og ég nefni bara Björgvin Ríkharðsson sem var frábær hérna í kvöld. Ungur 18 ára strákur sem hefur tekið tækifærinu fagnandi og við erum stoltir af þessum strákum en það er svo hundfúlt að ná ekki í úrslitakeppnina enn eitt árið."
 
Hvað vantar upp í Grafarvogi til að Fjölnir komist í úrslitakeppnina?
 
,,Það vantar eiginlega rosalega lítið, við höfum verið svona ,,næstum því" – nokkrir leikir eins og í vetur þar sem allt er járnum höfum við gloprað frá okkur. Lið eins og Keflavík hafa reynsluleikmenn eins og Magnús Þór Gunnarsson sem fór heldur betur illa með okkur í kvöld og aðra stráka sem þekkja ekkert annað en að vinna. En þetta ,,næstum því" merki á okkur breytist bara á næsta ári."
 
Hvað sérð þú í úrslitakeppninni, hver tekur titilinn?
 
,,Mér finnst það persónulega skandall ef Grindavík vinnur þetta ekki í ár. Þeir eru með langbest mannaða liðið og ættu að fara í gegnum þetta en að vera með besta hópinn gefur ekki neitt, það hefur sýnt sig í gegnum tíðina. Lið eins og KR gefur ekki titilinn eftir og svo veit maður aldrei með lið eins og Þór Þorlákshöfn og Keflavík en þetta verður skemmtileg úrslitakeppni."
 
Fréttir
- Auglýsing -