spot_img
HomeFréttirÖrvar: Stutt á milli hláturs og gráturs í deildinni

Örvar: Stutt á milli hláturs og gráturs í deildinni

Kári Viðarsson ræddi við þjálfara ÍR og Grindavíkur að leik loknum er liðin mættust í Hertz Hellinum í kvöld. ÍR vann þar sterkan sigur á Íslandsmeisturum síðustu tveggja ára.
 
 
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur:
 
Hertz-Hellirinn er ekkert uppáhalds húsið þitt – Hraðlestin tapar og svo kemur þú með Grindavíkurliðið og tapar líka.
Já, við höfum ekki verið að fara með mörg stig héðan á þeim tveimur árum sem ég hef verið með Grindavík. Við vorum bara slakir í kvöld og þrátt fyrir að hafa komist inn í leikinn í restina þá dugði það ekki. Við vorum heilt yfir slakir, slök vörn og ákvarðanatökur slæmar og bara langt frá því að vera nógu góðir til að eiga skilið að vinna þennan leik.
 
ÍR-ingarnir hittu vissulega vel í kvöld en það var þó ansi oft langt í næsta varnarmann.
Jájá, við vorum bara gjörsamlega sofandi og ég er gríðarlega svekktur hvað við mættum ekki nógu tilbúnir í þennan leik í ljósi þess að ÍR hafa verið að eflast gríðarlega síðan um áramót. Við erum að tapa boltanum oft klaufalega og reyna alltof flókna hluti. Við erum það reynslumikið lið að við eigum að vera mikið skynsamari og ákveðnari.
 
Þið hafið verið að koma ykkur í djúpa holu snemma í leikjum eins og í Vodafone-höllinni og Fjósinu en núna var holan kannski aðeins of djúp á móti of góðu liði?
ÍR-ingarnir voru bara góðir í kvöld og áttu bara skilið að vinna. Miðað við frammistöðuna í kvöld hefði það í raun verið alveg ótrúlegt hefðum við náð að snúa þessu í sigur. Við þurfum að fara að hugsa betur um undirbúninginn fyrir leiki – við erum kannski að spila frábærlega einn leik á móti liði í efri hlutanum og svo komum við hérna á móti liði í neðri hlutanum alveg hauslausir, einbeitingarlausir og í tómu rugli. Við þurfum að finna eitthvað út úr þessu og laga þetta.
 
Þetta er þá andlega hliðin – menn mæta einfaldlega ekki nógu grimmir í leiki eins og þennan?
Menn eru að mæta kannski of afslappaðir og halda að vegna stöðu liðanna í deildinni verði þetta bara eitthvað þægilegt. En þessi lið eru að berjast um sæti í úrslitakeppni og sum um að halda sæti sínu í deildinni þannig að við þurfum bara á öllu okkar að halda í hverjum einasta leik.
 
Örvar Þór Kristjánsson, þjálfari ÍR-inga:
 
Örvar, frábær leikur hérna í Hellinum, þið hélduð út og nælduð í 2 dýrmæt stig. Þú hlýtur að vera ánægður með framlag þinna manna í kvöld þar sem 6 menn voru að skila yfir 10 stigum?
,,Ég er bara ótrúlega stoltur og ánægður, við komumst dálítið langt yfir og Grindvíkingar eru meistarar með frábært lið og við vissum að þeir myndu gera áhlaup. En mínir strákar stóðust áhlaupið og unnu að mínu mati sanngjarnan sigur. Við vonandi bara byggjum á þessu, við erum búnir að vera á uppleið og mér fannst strákarnir eiga þetta virkilega skilið”.
 
 
Það er stígandi í liðinu ykkar og þið voruð til að mynda óheppnir að klára ekki KR-inga um daginn. Maður sér að það er að koma inn mikið sjálfstraust hjá þínum mönnum, ertu sammála því?
,,Já ég er sammála því, það er stutt á milli hláturs og gráturs í þessari deild en við erum búnir að vera á réttri leið núna og eins og ég sagði þá er ég virkilega ánægður. Grindvíkingar eru meistarar síðustu tveggja ára og eru þarna í toppbaráttunni og við erum bara virkilega ánægðir og stoltir“.
 
Viðtöl: Kári Viðarsson
Mynd: Heiða
 
  
Fréttir
- Auglýsing -