spot_img
HomeFréttirÖrvar: Stórt framlag úr öllum áttum

Örvar: Stórt framlag úr öllum áttum

„Við byrjuðum illa og hittum ekki neitt í byrjun, Tindastóll var að sama skapi að spila vel. Í öðrum leikhluta náum við góðri rispu, komum svo sterkir inn í þann þriðja og pökkuðum þeim eiginlega saman þar og héldum þetta út,“ sagði Örvar Þór Kristjánsson þjálfari ÍR eftir sigur á Tindastól í undanúrslitum Poweradebikarsins í kvöld. ÍR mun fyrir vikið leika gegn Grindavík í bikarúrslitum í Laugardalshöll þann 22. febrúar næstkomandi.
 
 
„Þessa slæmu byrjun okkar í kvöld er ekkert hægt að afsaka með löngu ferðalagi, við bara byrjuðum einfaldlega illa en það kom stórt framlag úr öllum áttum,“ sagði Örvar en liðsmenn ÍR hafa margir hverjir verið að bæta við sig snúning síðustu misseri. „Við fengum t.d. risa framlag frá Ragga (Ragnar Örn Bragason) en það hefur verið stígandi í stráknum. Bakverðirnir Björgvin og Nigel voru að spila flotta vörn og það eru ekkert allir sem fara í Síkið og vinna. Einnig fannst mér mjög gott að halda Tindastól undir 80 stigum,“ sagði Örvar sem var óspar á hólið í garð andstæðinga sinna í kvöld.
 
„Það er bjart yfir Tindastólsliðinu, þarna eru ungir menn í bland við gamla refi og þeir eru að spila vel. Alltaf gaman að koma Norður en ég var hrikalega sáttur við þessa 15 ÍR-inga sem mættu, þeir voru geggjaðir! Þetta voru menn sem létu sig hafa það að fara norður í þessu veðri og við vorum þvílíkt ánægðir með þá!“
 
ÍR mætir Grindavík í Höllinni í bikarúrslitum 22. febrúar, verður ekkert erfitt að fá menn til að einbeita sér í þeim deildarleikjum fram að bikarúrslitum?
 
„Nei, það er hörð barátta í Íslandsmótinu. Við erum að berjast fyrir lífi okkar í deildinni sem og sæti í úrslitakeppninni. Við förum í alla leiki núna eins og bikarúrslitaleiki en að sjálfsögðu hlakkar okkur til. Fram að bikarúrslitum eru þrír deildarleikir og við ætlum okkur bara að halda áfram á sömu braut.“
 
Mynd/ Hjalti Árnason 
Fréttir
- Auglýsing -