spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur Vals í Grafarvogi (Umfjöllun)

Öruggur sigur Vals í Grafarvogi (Umfjöllun)

22:24
{mosimage}

(Signý Hermannsdóttir fór fyrir Valskonum í kvöld)

Fyrsta umferðin í Iceland Express deild kvenna fór fram í kvöld og í Grafarvogi tóku Fjölniskonur á móti Val. Framan af leik var jafnt á með liðunum en í síðari hálfleik tóku gestirnir af Hlíðarenda öll völd og urðu lokatölur leiksins 46-72 Valskonum í vil. Signý Hermannsdóttir var stigahæst í liði Vals með 16 stig og 9 fráköst en hjá Fjölni var Birna Eiríksdóttir með 21 stig en 17 þeirra komu í fyrri hálfleik.

Gréta María Grétarsdóttir lék ekki með Fjölni í kvöld en hún hefur átt við meiðsli að stríða að undanförnu. Gréta hefði verið vel þeginn styrkur í teigbaráttunni en þar drottnaði Signý í kvöld óumdeilt. Hanna B. Kjartansdóttir var meðal áhorfenda í kvöld en heyrst hefur að hún ætli sér að leika með Val í vetur og er hún á leikmannalista liðsins. Hafdís Helgadóttir var heldur ekki með Valskonum í kvöld en hún hefur verið að glíma við meiðsli og óvíst hvernig þátttaka hennar verður í vetur.

Nokkur kuldi var í Grafarvogi framan af leik og boltinn lítt áferðafallegur. Fjölniskonum tókst að hanga í Val og var staðan 13-16 fyrir Val eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta skildi aðeins á með liðunum en Valskonur voru duglegar að dæla boltanum inn í teig á Signýju. Þar hitti Signý fyrir hina 16 ára gömlu Bergdísi Ragnarsdóttur sem átti góðan dag en Signý var klárlega ofjarl hennar í kvöld.

Staðan í hálfleik var 26-35 fyrir Val og Birna Eiríksdóttir komin með 17 stig hjá Fjölni. Þrjár voru jafnar í liði Vals með 8 stig í hálfleik. Í síðari hálfleik mættu gestirnir mun grimmari og Fjölniskonur virtust orðnar andstuttar enda lék Patrick Oliver á fáum leikmönnum í kvöld. Valsmenn riðu á vaðið með 2-13 áhlaupi fyrstu 5 mínútur leikhlutans og fyrir fjórða leikhluta var staðan 34-60 og björninn unninn.

Fjórði leikhluti var aðeins formsatriði fyrir Valskonur sem sýndu á köflum fínar rispur og lokatölur urðu svo 46-72 eins og fyrr greinir.

Bergdís Ragnarsdóttir tók 15 fráköst í kvöld en þessi 16 ára gamli leikmaður er mikið framtíðarefni. Bergdís gerði einnig 5 stig í leiknum en hún lék sinn fyrsta landsleik í sumar á Evrópumóti 16 ára landsliða og í sínum fyrsta leik tók hún 11 fráköst. Vert að fylgjast með þessum leikmanni í vetur og ekki ósennilegt að Fjölnir bindi mikla vonir við Bergdísi.

[email protected]

{mosimage}
(Birna Eiríksdóttir lék vel í fyrri hálfleik hjá Fjölni en nokkuð dró af henni í þeim síðari)

Fréttir
- Auglýsing -