spot_img
HomeBikarkeppniÖruggur sigur Tindastóls í Geysisbikarnum

Öruggur sigur Tindastóls í Geysisbikarnum

Úrvalsdeildarlið Tindastóls tók á móti fyrstudeildarliði Álftaness í Geysisbikar karla í körfuknattleik í Síkinu í kvöld.

Leikurinn náði aldrei að vera spennandi en var ágætlega hraður og skemmtilegur. Álftanes skoraði fyrstu körfu leiksins en það var í eina skiptið sem þeir voru yfir í leik kvöldsins þar sem Tindastólsmenn tóku fljótlega við sér og keyrðu yfir gestina. Staðan hélst þó nokkuð jöfn þar til um 2 mínútur lifðu af fyrsta leikhluta en þá tóku heimamenn á sprett sem skilaði 11 stiga forystu, 28-17 heimamönnum í vil og munurinn jókst bara eftir því sem á leikinn leið enda Tindastólsliðið töluvert öflugra en lið gestanna. Hannes setti nokkra þrista og ákafur varnarleikur skilaði auðveldum körfum fyrir heimamenn sem leiddu 54-28 í hálfleik.

Dúi Þór var sprækur fyrir gestina þrátt fyrir mótlætið og Sam Prescott átti líka fína spretti en munurinn hélt áfram að aukast í síðari hálfleik og Baldur fór fljótlega að hvíla sínar helstu stjörnur. Staðan eftir þriðja leikhluta var 75-46 og bara spurning fyrir heimamenn að halda haus og forðast meiðsli sem gekk ágætlega. Allir leikmenn á skýrslu náðu að taka þátt í leiknum og komust allir á blað í stigaskori og það var vel fagnað í Síkinu þegar Eyþór Lár Bárðarson setti erfitt stökkskot niður þegar um hálf mínúta var eftir.

Sinisa Bilic var stigahæstur heimamanna með 17 stig og Helgi Rafn var iðinn við kolann allan leikinn, spilaði flestar mínútur og var nálægt magnaðri þrennu með 11 stig, 10 fráköst og 9 stolna bolta. Hjá gestunum var Dúi Þór atkvæðamikill eins og áður var getið með 7 stig og 4 stoðsendingar og stjórnaði leiknum nokkuð vel gegn sterku liði heimamanna. Samuel Prescott Jr. átti líka góða spretti og skilaði 20 stigum fyrir gestina sem átti líka play leiksins þegar Sindri og Unnsteinn Rúnar höfðu betur í frákastabaráttu við 3 Tindastólsmenn og Unnsteinn skilaði þristi niður í kjölfarið.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna

Mynd: Pétur Rúnar átti ágætis leik með 6 stig og 6 stoðsendingar.

Fréttir
- Auglýsing -