spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur Þórs á Keflavík í fyrsta leik úrslita Dominos deildar karla

Öruggur sigur Þórs á Keflavík í fyrsta leik úrslita Dominos deildar karla

Þór lagði Keflavík í kvöld í fyrsta leik úrslitaeinvígis liðanna í Dominos deild karla, 73-91. Þeir eru því komnir með yfirhöndina í einvíginu, 1-0, en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki vinnur Íslandsmeistaratitilinn.

Fyrir leik

Leið liðanna í úrslitin nokkuð ólík. Keflavík sópuðu bæði Tindastól og KR út á meðan að Þór lagði Þór Akureyri í fjórum leikjum áður en þeir unnu Stjörnuna í oddaleik undanúrslita.

Keflavík og Þór mæst í tvö skipti í deildarkeppni vetrarins. Keflavík hafði sigur í báðum. Með 28 stigum heima í Keflavík í janúar, en aðeins 6 í seinni leik liðanna í Þorlákshöfn í byrjun mars.

Gangur leiks

Gestirnir úr Þorlákshöfn byrjuðu leik kvöldsins mun betur. Ná strax á upphafsmínútunum að byggja sér upp þægilegt forskot, sem mest var 13 stig í leikhlutanum, en þegar sá fyrsti var á enda var staðan 15-25. í upphafi annars leikhluta halda gestirnir uppteknum hætti og ná að koma í veg fyrir að Keflavík nái einhverju áhlaupi. Nokkur hiti var í leiknum og virtust heimamenn hafa dregið stutta stráið hjá dómurum leiksins, þeirra besti leikmaður Dominykas Milka kominn með 3 villur snemma í öðrum, nokkrar tæknivillur fengu að fljúga og þá var Arnór Sveinsson rekinn útúr húsi eftir aðeins 11 mínútna leik. Undir lok hálfleiksins gera gestirnir vel í að halda í sitt og eru 15 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 30-45.

Atkvæðamestir í nokkuð slöppu liði heimamanna voru Deane Williams með 8 stig, 5 fráköst og Calvin Burks með 7 stig. Fyrir Þór var Ragnar Örn Bragason bestur í fyrri hálfleiknum, skilaði 10 stigum, 2 fráköstum og var virkilega flottur á varnarhelmingi vallarins.

Þórsarar halda svo uppteknum hætti í byrjun seinni hálfleiksins. Gefa ekkert eftir varnarlega og gjörsamlega kveikja í netinu á sóknarhelmingi vallarins. Setja niður sjö þrista af níu tilraunum í þriðja leikhlutanum, sem endar 46-70. Með ágætis áhlaupi um miðjan fjórða leikhlutann koma heimamenn forystu Þórs minnst niður í 13 stig, sem miðað við leik þeirra þar fram að var nokkuð óvænt. Lengra komust þeir þó ekki og Þór sigraði að lokum með 18 stigum, 73-91.

Tölfræðin lýgur ekki

Þórsarar skutu 39% úr djúpinu á móti aðeins 29% skotnýtingu Keflavíkur þaðan.

Atkvæðamestir

Ragnar Örn Bragason var bestur í góðu liði Þórs í kvöld, skilaði 22 stigum og 3 fráköstum, en hann var með 71% þriggja stiga nýtingu. Calvin Burks skoraði mest fyrir Keflavík, 22 stig.

Hvað svo?

Leikur tvö í einvíginu er komandi laugardag 19. júní á heimavelli Þórs í Þorlákshöfn.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Róbert Freyr)

Fréttir
- Auglýsing -