spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur Snæfells í Stykkishólmi - Margt jákvætt í okkar leik

Öruggur sigur Snæfells í Stykkishólmi – Margt jákvætt í okkar leik

,,Við fórum með slæmar minningar frá Hveragerði í síðasta leik gegn Hamarsstúlkum og vorum staðráðnar að eiga góðan leik gegn þeim. Það vantaði leikmenn í bæði lið og ég vildi fá framlag frá öllum okkar leikmönnum í dag sem og ég fékk. Liðið spilaði vel og margt jákvætt í okkar leik sem við þurfum að taka með okkur til Njarðvíkur. Jordan var á eldi fyrir utan 3ja stiga línuna og lék frábærlega. Við þurfum að halda einbeitingu í okkar leikjum til að ná okkar markmiði og það er góð stemmning í liðinu,” sagði Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells eftir öruggan sigur á Hamri í Iceland Express deild kvenna í dag.
Fyrir leikinn var Snæfell í þriðja sæti deildarinnar með 26 stig en Hamar í sjöunda sæti og því næst neðsta með 12 stig. Hamar hafði sigur þegar þessi lið mættust síðast í Hveragerði og því áttu Snæfellingar harma að hefna.
Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en Snæfellingar tóku þó snemma frumkvæðið og höfðu framan af nauma forystu. Um miðbik fyrsta fjórðungs kom góður kafli hjá Snæfellingum og komust þær í 18-6 en þá höfðu þær hvítklæddu gert 9 stig í röð.
Snæfell spilaði nokkuð ákveðna maður á mann vörn og Hvergerðingar komust lítt áleiðis. Þær reyndu mikið af langskotum og áttu erfitt með að sækja að körfu Hólmara. Hamarskonur komu þá eilítið til baka og var staðan eftir fyrsta leikhluta 22-14 Snæfellingum í vil. Hjá Snæfelli var Jordan Murphy komin með 7 stig og Kieraah Marlow 6 en hjá Hamri var Katherine Graham með 5 stig og Marín Laufey Davíðsdóttir með 4.
Jordan Murphy opnaði annan leikhluta með þriggja stiga körfu, hennar þriðju i leiknum. Sóknarleikurinn var skipulagðari hjá Hamri og vörnin betri. Í stöðunni 31-23 tók Snæfell svo góðan sprett og komust í 41-23 en þá svaraði Hamar loks fyrir sig með tveimur stigum úr vítaköstum. Jordan Murphy var í miklu stuði en hún var búin að setja niður 5 þrista úr 6 tilraunum. Snæfellingar gerðu svo gott sem út um leikinn í lok annars leikhluta en þegar blásið var til leikhlés var staðan orðin 46-25 og á brattan að sækja fyrir þær bláklæddu.
 
Stigahæstu leikmenn í liði Snæfells voru Jordan Murphy 19 stig og 7 fráköst og Kieraah Marlow með 12 stig og 6 fráköst. Í liði Hamars var Katherine Graham með 8 tig og Marín Laufey Davíðsdóttir með 6 stig.
Hamarskonur byrjuðu þriðja leikhluta af krafti og setti Fanney Guðmundsdóttir niður tvær þriggja stiga körfur. Snæfellskonur hleyptu Hamarskonum þó aldrei of nærri sér og hélst munurinn þetta 18-20 stig. Hvergerðingar réðu illa við Marlow undir körfunni og svo var Murphy sjóðheit fyrir utan en hún var komin með 8 þriggja stiga körfur úr 10 tilraunum. Staðan eftir þriðja leikhluta var 67-43.
 
Hvergerðingar neituðu að gefast upp og skoruðu fyrstu þrjú stig fjórða leikhluta. Þær reyndu að pressa Snæfellinga hátt en sú pressa gekk þó ekki alveg sem skyldi og fór munurinn sjaldnast undir 20 stig. Leikurinn fjaraði fljótt út og fór svo að allir leikmenn beggja liða fengu að spreyta sig nema Alda Leif hjá Snæfelli sem sat sem fastast en hún var tæp fyrir leikinn vegna meiðsla.
 
Svo fór að lokum að Snæfell vann öruggan sigur 87-56 og situr sem fyrr í þriðja sæti deildarinar og Hamar í því sjöunda. Í liði Snæfells átti Jordan Murphy stórleik en hún skoraði 28 stig og tók 11 fráköst. Þriggja stiga hittni hennar var líka frábær en hún skoraði 8 þriggja stiga körfur úr 10 tilraunum. Kieraah Marlow var einnig sterk í liði Snæfells en hún skoraði 20 stig og tók 10 fráköst. Hildur Kjartansdóttir var svo með 10 stig og aðrar minna. Hjá Hvergerðingum var Katherine Graham með 16 stig, Fanney Guðmundsdóttir var með 13 sitg og Marín Laufey Davíðsdóttir með 12 stig og 10 fráköst.
 
 
Myndir og umfjöllun/ Þorsteinn Eyþórsson
Fréttir
- Auglýsing -