spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur Snæfells í Smáranum

Öruggur sigur Snæfells í Smáranum

Breiðablik og Snæfell mættust í kvöld í Domino´s deild kvenna en leikið var í Smáranum í Kópavogi. Fyrir leikinn voru Blikakonur jafnar tveimur öðrum liðum í neðsta sæti deildarinnar með tvö stig en Snæfellskonur jafnar tveimur öðrum liðum í efsta sætinu með 10 stig. Svo fór að Snæfell vann nokkuð öruggan sigur 61 -74.
 
 
Snæfellingar byrjuðu leikinn af krafti og skorað fyrstu fjögur stig leiksins en Anita Rún skoraði fyrstu stig Blika með þriggja stiga körfu. Snæfell náði fljótlega 10 stiga forystu og voru mjög fastar fyrir í vörninni og unnu boltann oft og sóttu hratt á heimakonur og skoruðu auðveldar körfur. Þrátt fyrir það voru Snæfellskonur oft klaufalegar í sókninni og áttu nokkuð af misheppnuðum sendingum auk þess sem þær klikkuðu sovlítið á opnum skotum. Blikum gekk illa að finna leiðina að körfunni og skoruðu þær helst af vítalínunni eða fyrir utan þriggja stiga línuna til að byrja með.
 
Á fjórðu mínútu í fyrsta leikhluta skipti þjálfari Breiðabliks öllu byrjunarliðinu út í einni svipan og setti alveg nýtt lið inn á, ansi skemmtilegt það. Snæfellingar voru samt sem áður með yfirhöndina eftir fyrsta leikhluta og var staðan 13 – 23 Snæfelli í vil. Annar leikhluti var svipaður og sá fyrri og hafði Snæfell undirtökin og jók forystuna hægt og bítandi. Í hálfleik var munurinn orðinn 18 stig, 27 – 45. Bæði lið voru dugleg að skipta leikmönnum inn á og fengu margir að spreyta sig í síðari hálfeik, Snæfell jók forystuna upp í 26 stig undir lok þriðja leikhluta og yfirburðir Snæfells miklir.
 
Blikar gáfust þó ekki upp og héldu áfram að reyna alveg til enda og undir lok fjórða leikhluta kom góður kafli þar sem þær skoruðu 13 stig í röð og breyttu stöðunni úr 48 – 71 í 60 – 71. Þessi góði kafli kom þó heldur of seint og Snæfell landði nokkuð þægilegum sigri 61 – 74. Stigahæstar í liði Breiðabliks voru Arielle Wideman með 14 stig og Berglind Karen skoraði 10 stig og aðrir minna. Í liði Snæfells var Kirsten McCarthy stigahæst með 29 stig og 14 fráköst og Berglind Gunnarsdóttir skoraði 14 stig. Staða liðanna í deildinni hefur ekkert breyst eftir þennan leik. Snæfell er áfram í efsta sæti ásamt Haukum og Keflavík með 12 stig en Breiðablik er í neðsta sæti með 2 stig ásamt Hamri og KR.
 
Andri Þór Kristinsson þjálfari Breiðabliks
„Snæfell er með mjög sterkt varnarlið og fá að spila fast og fengu að spila fastara en við í kvöld, allavega á meðan þetta var einhver leikur. Undir lokin þegar þetta var búið þá jafnaðist þetta út. Við erum greinilega ennþá nýliðar í þessari deild og verðum það eflaust í allan vetur. Við verðum að eiga rosalega góðan leik til þess að vinna lið eins og Snæfell. Mér fannst þær spila hörku vörn og þá komast þær hratt upp völlinn og þær hlaupa vel. Kaninn hjá þeim var illviðráðanlegur, hún skoraði 24 stig á 16 mínútum í fyrri hálfleik og þar held ég að leikurinn hafi legið. Þær eru með vel mannað lið og frábæran leikstjórnanda og mikið af leikmönnum sem hlaupa vel.
 
Það verður erfiður leikur í næstu umferð á móti Keflavík?
“Sá leikur verður eflaust svipaður og þessi. Þegar við förum að verða öruggari með okkur og sterkari á boltanum þá getum við keppt við öll þessi lið, hvað sem þau heita. Við erum bjartsýn á framhaldið þó svo að það sé ekki endilega að skila sér í stigum. Það er mikið af stelpum að æfa hjá okkur og þær æfa vel og það er góð umgjörð í kringum liðið. Það á eftir að skila sér síðar.”
 
Þú ert óhræddur við að skipta út öllu byrjunarliðinu eins og í fyrri hálfleik og leifa öðrum að spreyta sig?
“Við erum ekki bara að hugsa um þennan leik og næsta leik, við erum líka að hugsa um framtíðina og við höfum byggt okkar árangur svolítið á því með að hugsa langt, enda er nútíminn kannski ekkert svakalega spennandi í botnbaráttunni þannig að við látum okkur bara dreyma og hugsa svolítið stórt. Þessar stelpur þurfa að losna við hrollinn annars koma þær bara skjálfandi á beinunum.”
 
Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells
“Mér fannst við byrja leikinn sterkt og náðum þægilegu forskoti. Mér fannst okkur líða kannski of vel og við slökuðum full mikið á klónni á köflum. Áræðnin var aðeins of mikill hjá okkur og Breiðblik náði að nýta sér það vel undir lokin. En heilt yfir er ég ánægður, það fengu allir að spreyta sig í dag og það var frábært að ná því. Markmiðið var að ná í tvö stig og það tókst. Markmiðið var ekkert endilega að vinna eitthvað stórt, bara vinna og ná í tvö stig sem er virkilega ánægjulegt, með ekki betri leik en þetta.”
 
Hvernig lýst þér á framhaldið?
“Nú er fyrsta umferðin búin og erum búin að tapa einum leik og það á heimavelli og við eigum Hauka í næstu umferð og þær eru búnar að spila vel. Við erum eina liðið sem höfum unnið þær þannig að við ætlum að halda því áfram og mæta vel stemmdar til leiks.”
 
Myndir og umfjöllun/ Þorsteinn Eyþórsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -