spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur Skallagríms (Umfjöllun)

Öruggur sigur Skallagríms (Umfjöllun)

7:44

{mosimage}

Skallagrímsmenn höfðu ástæðu til að fagna í gær 

Skallagrímsmenn sigruðu Fjölni nokkuð örugglega í Íþróttahúsinu i Borgarnesi í kvöld. Lokatölur urðu 88-65. Fjölnismenn urðu fyrir mikilli blóðtöku í gær þegar Nemanja Sovic, einn af þeirra lykilmönnum seinustu ár, gekk til liðs við Breiðablik. Það voru því fremur vængbrotnir Fjölnismenn sem að mættu í Borgarnesið í kvöld.  Leikurinn var þó jafn framan af og skiptust liðin á að hafa forystu í 1. leikhluta, Karlton Mims byrjaði ágætlega fyrir gestina en heldur dró þó af honum eftir því sem á leikinn leið. Staðan eftir 1. leikhluta var 20-17 fyrir Skallagrím.

 

Greinileg batamerki voru á leik Skallagríms frá seinustu leikjum og þá aðallega sóknarleiknum. Boltinn gekk betur á milli manna og greinilegt að leikkerfi Kenneths Webb þjálfara eru hægt og bítandi að sígast inn í menn. Leikmenn voru að hlaupa vel af hindrunum og fengu nóg af opnum skotum, eitthvað sem hefur vantað í seinustu leikjum þar sem einstaklingsframtök hafa oftar en ekki ráðið ferðinni.

Fjölnismenn virkuðu þreyttir og það var þá helst hinn þétti Drago Pavlovic sem sýndi einhvern lit.  Skallagrímsmenn leiddu í leikhléi 40-38, forysta sem hefði hæglega getað verið stærri. Í 3. leikhluta lögðu heimamenn grunninn af sigrinum með góðri spilamennsku og það er óhætt að fullyrða það að þessi leikhluti var með því besta sem sést hefur frá liðinu það sem af er vetri.

Pétur Már Sigurðsson var að nýta vel opnu skotin auk þess sem var að spila fína vörn.  Frakkinn léttlyndi Alain Fall átti einnig prýðisleik í kvöld og skemmti áhorfendum með skemmtilegum stoðsendingum út allan leikinn, þær urðu 10 talsins. Skallagrímsmenn höfðu 14 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann 69-55. Hann var aðeins formsatriði og leyfði Webb ungu strákunum að klára leikinn og stóðu þeir sig allir mjög vel. Leikurinn endaði eins og áður sagði með öruggum sigri heimamann 88-65.  

Pétur Már Sigurðsson átti mjög góðan leik í kvöld. Hann var með 22 stig og  fína skotnýtingu, hann var einnig að spila fantavörn á Níels Dungal sem komst lítt áleiðis. Frakkinn síkáti Alann Fall var einnig öflugur eins og áður sagði með 11 stig, 10 stoðsendingar og 6 fráköst. Þeir Darell Flake, Miljoka Zekovic og Axel Kárason stóðu sig allir vel og tók Axel heil 6 sóknarfráköst í leiknum. Ungu strákarnir áttu allir fínar innkomur og var gaman að sjá hinn unga Sigurð Þórarinsson fá eldskírn sína í Úrvalsdeild.

Í liði Fjölnis var fátt um góða drætti og á öllu virðist sem Bárður Eyþórsson sé að sigla í strand með þetta unga og efnilega lið. Karlton Mims er langt frá því að vera rétti leikmaðurinn fyrir liðið, getan er vissulega til staðar en hann virðist oft á tíðum of ragur við að taka af skarið. Þegar allt stefndi í óefni í leiknum var hann víðs fjarri og þeim vantar mann sem stígur upp þegar neyðin er stærst. Drago Pavlovic er langt frá að vera hæfileikaríkasti leikmaður sem sést hefur á Íslandi en hann kemur á óvart og var þeirra besti maður í kvöld með 24 stig og 9 fráköst.

www.skallagrimur.org

Mynd: www.skallagrimur.org

Fréttir
- Auglýsing -