spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÖruggur sigur Selfoss á Hrunamönnum

Öruggur sigur Selfoss á Hrunamönnum

Í annarri umferð 1. deildar karla tóku Selfyssingar á móti Hrunamönnum í íþróttahúsi Vallskóla. Selfyssingar léku mun betur en Hrunamenn í fyrri hálfleik, skoruðu 63 stig gegn 39 stigum gestanna. Í síðari hálfleik héldu gestirnir í við heimamenn en munurinn varð aldrei það lítill að minnsta hætta væri á því að Selfoss myndu tapa leiknum sem lauk 103-88.

Í liði Selfyssinga var Srdan Stojanovic atkvæðamestur með 30 stig og 9 stoðsendingar. Gerald Robinson var mikilvægur. Hann skoraði 28 stig og tók 10 fráköst og einu skiptin sem Hrunamenn náðu einhverjum vísi að áhlaupi var þegar Gerald var utan vallar. Kennedy Clement Aigbogun og Ísak Júlíus áttu líka prýðisgóðan leik. Ísak stal 5 boltum og sendi 9 stoðsendingar.

Hjá Hrunamönnum var fátt um fína drætti. Sóknarleikurinn liðsins var ráðalaus og byggðist nær eingöngu á einstaklingsframtaki erlendu leikmannanna, Ahmad Gilbert og Sam Burt. Þeir skorðu 29- og 25 stig. Ef eitthvert leikkerfið sem liðið hleypur á að ganga út á það að búa til opið skot fyrir annan leikmann en Gilbert hefur liðinu ekki tekist að framkvæma það. Margar sóknir liðsins enda án þess að liðið nái skoti á körfuna eða með skoti sem leikmenn þurfa sjálfir að búa sér til án hjálpar liðsfélaganna. Leikmenn Selfoss skutu 44 þriggja stiga skotum en Hrunamenn aðeins 19. Hlutfall heppnaðra þriggja stiga skota liðanna var jafnt, 31%. Vitaskuld vinnur liðið leikinn sem þorir að skjóta á körfuna.

Margt þurfa Hrunamenn að lagfæra ætli liðið að standa í einhverju liði deildarinnar. Eitt af því er leikstjórnin. Bæði þjálfari liðsins og aðstoðarþjálfari leika fyrir liðið og á köflum er enginn til að dreifa álaginu á milli leikmanna eða stjórna því hvernig liðið ætlar að bregðist við leik andstæðingsins. Frambærilegir leikmenn sátu á bekknum svo til allan leikinn og fyrir kom að jafnvægi vantaði í 5 manna liðið m.t.t. úthalds, hraða og ýmissa annarra eiginleika.

Tölfræði leiks

https://www.karfan.is/2022/09/konrad-eftir-leik-a-selfossi-anaegdur-med-barattuna-i-lokin/
https://www.karfan.is/2022/09/chris-eftir-sigurinn-gegn-hrunamonnum-frabaer-fyrri-halfleikur/

Mynd / Selfoss FB

Fréttir
- Auglýsing -