spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur KFÍ á Ármanni (Umfjöllun)

Öruggur sigur KFÍ á Ármanni (Umfjöllun)

14:27
{mosimage}

Það var ljóst fyrir leikinn í gærkvöld að sigur væri það eina sem kæmi til greina fyrir KFÍ gegn Ármenningum. KFÍ vann fyrri leik liðanna örugglega og eins og liðið hefur leikið undanfarið þá var það sjálfsögð krafa að vinna þennan leik. Lið gestanna var heldur fáliðað því aðeins 6 leikmenn voru á skýrslu.

Leikurinn fór hægt af stað og Ármenningar komust yfir 4-7 og var það í eina skiptið sem þeir leiddu í leiknum. Fljótlega var staðan orðin 14-7 og voru það Þórir og Pance sem sáu um það. Vörnin var góð í fyrsta leikhluta og því komu hraðaupphlaup og auðveldar körfur. Pance var sjóð heitur og sett 5 þrista í fyrsta leikhluta sem endaði 28-11 KFÍ í vil.

Í byrjun annars leikhluta héldu heimamenn áfram og var munurinn kominn upp í 21 stig 34-13 en þá slökuðu heimamenn óþarflega mikið á í vörninni og gestirnir minkuðu muninn jafnt og þétt og í hálfleik var staða 51-40.

Borce var ekkert svakalega sáttur við varnarleikinn og fékk menn upp á lappirnar aftur og þriðji leikhluti var eign KFÍ. Þar fór Craig á kostum, stýrði liðinu vel og skoraði 14 stig auk þess að eiga nokkrar stoðsendingar.

Í byrjun fjórða leikhluta komst munurinn í 35 stig. Þá fór Borce að setja kjúklingana inná og léku þeir síðustu 7 mínúturnar og komust vel frá sínu. Liðið var að leika vel í gær á köflum. En við getum verið jafn lélegir og við getum verið góðir.

Þrátt fyrir að mótspyrnan hafi kannski ekki verið mikil í dag þá eru Ármenningar sýnd veiði en ekki gefin. Þeir unnu til að mynda Þórsara um daginn og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir það. KFÍ er nú búið að vinna 10 leiki á tímabilinu og það eru ansi mörg ár síðan það gerðist síðast. En baráttan er hörð við Fjölni og þór um sæti í úrslitum og því má ekki misstíga sig núna. Næsti leikur er á föstudag á móti Haukum sem sitja í 2 sæti deildarinnar, en þeir unnu í gær Hamar og því eru KFÍ og Haukar einu liðin sem hafa sigrað Hamar í vetur. Það verður án efa stórleikur.

Craig var frábær í þessum leik. Hann var með 37 stig (34 mín) var með 82% í tveggja (9/11), 72% í þriggja (5/7) og 100% í vítum (4/4, þá tók hann 6 fráköst, gaf 9 stoðsendingar og stal þrem boltum. Hann fékk 50 í einkunn fyrir framlag sitt og er þetta í annað skiptið i vetur sem hann nær því.

Það er leitt að sjá að Smartstat kerfið bregst þegar reiknað er út framlag og annað og til að mynda vantar tvo leiki inn á kerfið hjá KFÍ og svo er einnig hjá nokkrum öðrum liðum, en Craig er klárlega besti leikmaður 1 deildar og er þessi knái piltur búinn að sanna það fyrir okkur í vetur.

Guðjón M. Þorsteinsson

Fréttir
- Auglýsing -