8:12
{mosimage}
Í kvöld tóku Þórsarar á móti Íslandsmeisturum Keflavíkur í 12. umferð Iceland Express deildar karla í körfuknattleik. Fyrir leikin bjuggust flestir við erfiðum leik fyrir heimamenn þar sem í lið heimamanna vantaði bæði Cedric Isom og Óðinn Ásgeirsson. Heimamenn byrjuðu þó leikinn vel en slæmur leikur í öðrum og þriðja leikhluta gerði út um sigurvonir heimamanna og svo fór að gestirnir fóru með öruggan 17 stiga sigur, 76-93.
Þórsarar byrjuðu leikinn af krafti og Konrad Tota var ekki lengi að stimpla sig inn í leik liðsins er hann skoraði fyrstu stig leiksins. Keflvíkingar byrjuðu fljótlega í fyrsta leikhluta að pressa lið heimamanna allan völlinn og áttu heimamenn í smá vandræðum með að leysa pressuvörn Keflavíkur. Þrátt fyrir pressuvörn gestanna náðu gestirnir þó aldrei að slíta sig frá Þórsurum sem ætluðu sér að selja sig dýrt í leiknum. Undir lok fyrsta leikhluta náðu gestirnir þó góðum spretti og náðu að breyta stöðunni úr 21-21 í 23-30 og leiddu því leikinn með sjö stiga mun er fyrsti fjórðungur var liðinn, 23-30. Þessi slæmi endasprettur Þórsara virtist draga töluverðan kraft úr heimamönnum. Ekkert gekk upp hjá heimamönnum sem áttu það til að missa knöttinn klaufalega og náðu ekki að klára sóknir sínar nægilega vel. Keflvíkingar náðu að nýta sér andvaraleysi heimamanna og byggðu smá saman upp gott forskot sem þeir létu aldrei af hendi. Þegar öðrum leikhluta lauk voru Keflvíkingar komnir með nokkuð þægilegt forskot og leiddu leikinn með 17 stiga mun, 33:50 og fátt virtist stefna í annað en sigur gestanna.
Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn rétt eins og þeir enduðu fyrri hálfleikinn. Það gekk ekkert upp hjá Þórsurum sem virtist fara örlítið í skapið á þeim. Hins vegar héldu Keflvíkingar uppteknum hætti og spiluðu leikinn skynsamlega enda lítil sem enginn mótspyrna frá heimamönnum. Keflvíkingar náðu mest 34 stiga forystu í þriðja leikhluta, 36:70 í miðbik leikhlutans en er leikhlutanum lauk höfðu gestirnir 29 stiga forystu 48:77. Í fjórða leikhluta slökuðu gestirnir svolítið á klónni og með góðri baráttu heimamanna náðu heimamenn að minnka muninn smá saman niður. Keflvíkingar héldu þó ávallt öruggum mun á milli liðanna og svo fór að Keflvíkingar fóru með öruggann 17 stiga sigur af hólmi, 76-93.
{mosimage}
Þórsarar byrjuðu leikinn af krafti, hins vegar var þessi slæmi leikkafli í öðrum og þriðja leikhluta sem kláraði leikinn fyrir heimamenn. Á löngum köflum í 2. og 3. leikhluta virtust heimamenn vera búnir að gefast upp og á játa sig sigraða. Hins vegar mega Þórsarar eiga það að þeir komu sterkir tilbaka í síðasta fjórðung og neituðu að gefast upp. Í liði heimamanna var Guðmundur Jónsson sprækastur í sókninni og skoraði 24 stig. Ólafur Torfason átti einnig ágætis spretti og sýndi af og til góða takta í sókninni og skoraði 13 stig. Jón Orri var sem fyrr með sín 12 stig og spilaði ágæta vörn, Konrad Tota byrjaði leikinn mjög vel en var síðan eftir það óheppinn með skot sín. Hins vegar á Konrad eflaust eftir að láta meir af sér kveða þegar líður á deildina. Keflvíkingar þurftu aldrei að sýna sínar bestu hliðar. Þeir áttu þó góða spretti, þá sérstaklega í byrjun annars leikhluta þar sem þeir nánast kláruðu leikinn í öðrum og síðan þriðja leikhluta. Hörður Axel sýndi lipra takta og setti niður 20 stig í kvöld. Sigurður Þorsteinsson og Vilhjálmur Steinarsson áttu einnig ágætis leik sem og Jón Nordal. Siguður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur gat þó leyft sér að rótera í liði sínu og fengu því allir leikmenn Keflavíkur að spreyta sig í leiknum. En heilt yfir spilaði Keflavíkur liðið nokkuð vel og á því sigurinn fyllilega skilinn.
Nánar má lesa um leikinn og einnig viðtöl við þjálfara liðanna á heimasíðu Þórs.
Sölmundur Karl Pálsson
Myndir: Rúnar Haukur Ingimarsson – www.runing.com/karfan
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}



