spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur Keflavíkur gegn baráttuglöðum Grindvíkingum

Öruggur sigur Keflavíkur gegn baráttuglöðum Grindvíkingum

Keflavík lagði nýliða Grindavíkur í kvöld í fjórðu umferð Dominos deildar kvenna, 105-85.

Eftir leikinn er Keflavík í 2.-3. sæti deildarinnar með 6 stig líkt og Njaðvík á meðan að Grindavík er í 5.-7. sætinu ásamt Breiðablik og Fjölni með 2 stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar.

Gangur leiks

Heimakonur í Keflavík mættu sterkar til leiks. Ná völdum á leiknum strax á upphafsmínútunum og eru 11 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 28-17. Undir lok fyrri hálfleiksins gera nýliðarnir svo vel í að missa heimakonur ekki of langt frá sér. Þrátt fyrir að á tímabili nái Keflavík mest 15 stiga forystu í fyrri hálfleiknum, nær Grindavík mikið til að loka gatinu og eru aðeins 6 stigum undir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 51-45.

Heimakonur í Keflavík eru svo áfram skrefinu á undan í upphafi seinni hálfleiksins og leiða með 9 stigum fyrir lokaleikhlutann, 75-66. Undir lok leiksins ná heimakonur svo að loka og læsa varnarlega, ganga á lagið á sóknarhelmingi vallarins og sigra að lokum með 20 stigum, 105-85.

Kjarninn

Leikur kvöldsins var hin besta skemmtun þó Keflavík hafi í raun leitt frá fyrstu mínútu og út leikinn. Grindavík gafst aldrei upp og náði að halda þessu spennandi fram á lokamínúturnar. Heilt yfir mætti færa rök fyrir því að tapaðir boltar hafi verið banabiti þeirra í leiknum, en Keflavík náði að gera sér hellings mat úr þeim í kvöld og þá sérstaklega þegar að mest á reyndi undir lok leiksins.

Líkt og tölurnar gefa til kynna var lengst af lítið um varnir í leiknum, en bæði lið voru að skjóta prýðilega úr djúpinu. Keflavík 11 af 27, 40% og Grindavík 9 af 26, eða 34%.

Atkvæðamestar

Anna Ingunn Svansdóttir og Daniela Wallen Morillo voru atkvæðamestar heimakvenna í dag. Daniela með 15 stig, 12 fráköst, 9 stoðsendingar og 7 stolna bolta, en Anna Ingunn 27 stig, 5 stoðsendingar og 3 stolna bolta.

Fyrir nýliða Grindavíkur var það Robbi Ryan sem dró vagninn með 34 stigum, 12 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst komandi sunnudag 24. október. Grindavík fær Hauka í heimsókn á meðan að Keflavík heimsækir Val.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -