Haukar áttu ekki í basli með Valsmenn þegar liðin mættust í 1. deild karla á Ásvöllum í kvöld. Haukar unnu leikinn örugglega 72-45 og eins og stigaskor gefur til kynna voru varnir beggja liða að spila oft á tíðum vel. Leikurinn var fast spilaður og var oft á tíðum leifð mikil harka. Valsmenn voru með eindæmum óheppnir oft undir körfu Hauka og voru fjölmörg sniðskot sem fóru forgörðum hjá gestunum.
Haukar komust á fljúgandi start strax í byrjun leiks og breyttu þeir stöðunni úr 7-6 í 17-6. Helgi Björn Einarsson var djúgur fyrir Hauka á þessum kafla en hann skoraði megnið af stigum Hauka í fyrsta leikhluta sem endaði 19-9.
Haukar héldu áfram að spila vel á meðan ekkert gekk upp hjá Valsmönnum. Heimamenn keyrðu muninn upp í 14 stig en þá skiptu gestirnir yfir í svæðisvörn. Sú vörn virtist virka vel á Haukaliðið og áttu þeir oft á tíðum erfitt með að finna körfu Vals. Davíð Páll Hermannsson hélt Haukum þó í vissri fjarlægð með tveimur þriggjastiga körfum en Valur náði aðeins að rétta stöðu sína fyrir hálfleik og staðan 32-21 fyrir Hauka.
Seinni hálfleikur var algjör eign Hauka. Alls gerðu þeir 40 stig gegn 24 Valsmanna og áður en þriðja leikhluta lauk var munurinn orðinn 19 stig og Haukarnir alls ekki hættir. Munurinn á liðunum varð alltaf meiri og meiri og endað þetta með 27 stiga sigri Hauka 72-45.
Stigahæstur í frekar jöfnu liði Hauka var Helgi Björn Einarsson með 14 stig en hann tók einnig 11 fráköst. Næstur honum var yngsti leikmaður Haukaliðsins, Emil Barja, en hann gerði 11 stig og tók 8 fráköst.
Hjá Val var Snorri Sigurðsson stigahæstur með 8 stig en þessi ungi bakvörður er að stíga sín fyrstu spor í meistaraflokki. Næstir honum voru Björgvin Valentínusarson og Þorgrímur Björnsson með 5 stig hvor.
Mynd: [email protected]



