spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur Grindvíkinga á Króknum (Umfjöllun)

Öruggur sigur Grindvíkinga á Króknum (Umfjöllun)

22:17

{mosimage}

Grindavík og Tindastóll tóku einn léttan leik í kvöld í Síkinu á Króknum. Hann var heldur léttari fyrir gestina því þeir unnu 26 stiga sigur á heldur slöku liði heimamanna. Grindavík sem er í öðru sæti deildarinnar, í baráttu við KR um toppsætið, heldur því áfram að elta þá. Tindastóll situr hinsvegar áfram í fimmta sætinu.

Byrjunarlið gestanna var Nick Bradford, Arnar Freyr, Páll Axel, Brenton og Helgi Jónas. Hinu megin voru það Axel, Darrell, Friðrik, Svavar og Ísak sem byrjuðu. Leikinn dæmdu þeir hinir vel snyrtu, Sigmundur Már Herbertsson og Rögnvaldur Hreiðarsson.

Helgi Jónas byrjaði leikinn með þristi og áður en fyrsta mínútan var liðin var staðan orðin 0 – 6. Þá ákváðu Stólarnir að vera með og skoruðu næstu fjögur stig. Grindavík fór svo að auka muninn og í stöðunni 8 – 15 sá Kiddi sig knúinn til að taka leikhlé fyrir Tindastól. Að því loknu komu sex stig í röð frá heimamönnum, en fimm stig frá Grindavík á síðustu mínútunni gaf þeim sex stiga forskot eftir fyrsta leikhluta. Staðan 14 – 20.

Heimamenn komu aðeins ákveðnari til leiks í öðrum leikhluta og náðu fljótlega að minnka muninn í þrjú stig. Grindavík gaf þá aðeins í, en Stólarnir héngu í þeim allt þar til staðan var 35 – 37 og tvær mínútur eftir af leikhlutanum. Þá hrukku gestirnir almennilega í gang og skoruðu níu stig án svars fram að hléi. Þar af Páll Axel með tvo þrista. Eftir ágætan leik lengst af leikhlutanum voru Stólarnir komnir 11 stigum undir í hálfleik og greinilegt að það yrði á brattann í síðari hálfleik.

Sem og varð raunin, því Grindvíkingar hrukku ekkert úr gír í hálfleiknum og skoruðu fyrstu 11 stig síðari hálfleiks. 20 – 0 kafli hjá þeim á fimm mínútum og munurinn orðinn 22 stig. Varnarleikur gestanna var sterkur á þessum kafla og sóknarleikurinn gekk vel. Stólarnir tóku sig saman í andlitinu næstu mínúturnar og söxuðu á muninn og komu honum niður í 12 stig í stöðunni 49 – 61. Þá kom kafli þar sem menn urðu of ákafir, ætluðu sér of mikið í sókninni og Grindavík náði aftur tuttugu stiga forskoti. Staðan að loknum þremur leikhlutum 53 – 73. Útlitið dökkt fyrir heimamenn á meðan gestirnir voru komnir í góð mál.  

Gestirnir kláruðu svo leikinn með sjö stigum í röð í upphafi fjórða leikhluta og nokkuð ljóst hvernig þessi leikur færi. Kominn 27 stiga munur. Hann hélst svo í kringum 25 stigin til leiksloka og bekkurinn hjá Grindavík týndist smátt og smátt inn á. Ekki náðu Stólarnir að nýta sér það og að lokum var 26 stiga tap staðreynd, lokatölur 68 – 94.

Tindastóll átti þokkalegasta fyrri hálfleik, en slæmur kafli í lok hans og í upphafi síðari hálfleik gerði út um leikinn og eftir það var aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi. Grindvíkingar tóku strax forystu í leiknum og létu hana aldrei af hendi og tóku með sér tvö stig af Króknum. Hjá Stólunum bar enginn sérstaklega af, menn áttu spretti, en leikur liðsins var ekki heildsteyptur. Ísak var góður í fyrri hálfleik og sömuleiðis Helgi Rafn. Flake hefur oft spilað betur, var þó með 17 stig en næstur kom Svavar með 15 stig.

Grindavík spilaði fastan varnarleik sem Stólarnir réðu illa við og sóknarleikurinn gekk lengstum ágætlega. Bestir þeirra voru Páll Axel og Þorleifur og síðan áttu Brenton, Helgi Jónas og Nick Bradford ágætis leik. Grindavík er því komið með 24 stig, en Stólarnir eru áfram með 14 stig.

Nokkrar tölur úr leiknum: 4-8, 8-13, 14-15, 14-20    18-26, 25-30, 32-34, 35-46,   37-57, 43-61, 49-63, 53-73,    56-80, 60-84, 67-89, 68-94.

Tölfræði leiksins

Texti: JS

Mynd úr safni: [email protected]

 

 

Fréttir
- Auglýsing -