spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaÖruggur sigur Grindavíkur í Smáranum

Öruggur sigur Grindavíkur í Smáranum

Grindavík lagði Snæfell í Smáranum í kvöld í 11. umferð Subway deildar kvenna. Eftir leikinn er Grindavík í 2.-3. sæti deildarinnar með 8 sigra líkt og Njarðvík á meðan að Snæfell vermir botnsætið, enn án stiga eftir fyrstu 11 umferðirnar.

Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikur kvöldsins nokkur einstefna frá byrjun. Grindavík hafði tögl og haldir í leiknum frá fyrstu mínútu, þar sem þær leiddu með 14 stigum eftir fyrsta leikhluta og 22 stigum þegar í hálfleik var komið. Í upphafi seinni hálfleiks láta þær svo kné fylgja kviði og eru komnar þægilegum 33 stigum á undan fyrir lokaleikhlutann. Í honum sigla þær svo að lokum gífurlega öruggum 30 stiga sigur í höfn, 96-66.

Atkvæðamestar fyrir Grindavík í leiknum voru fyrirliðinn Hulda Ólafsdóttir með 19 stig, 6 fráköst og Eva Braslis með 21 stig og 4 fráköst. Fyrir Snæfell var Shawnta Shaw best með 31 stig, 12 fráköst og 9 stoðsendingar.

Bæði lið eiga leik næst komandi þriðjudag 5. desember, en þá mætir Grindavík Íslandsmeisturum Vals í Origo höllinni og Snæfell fær Þór Akureyri í heimsókn.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -