spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaÖruggur sigur Fjölnis í Grindavík

Öruggur sigur Fjölnis í Grindavík

Seinni leikurinn í “tvíhöfða” dagsins í Grindavík var leikur b-liðs gulra á móti Fjölni en a-lið Grindavíkur att einmitt miklu kappi við Fjölni á síðasta tímabili og vann í lokaúrslitum um sæti í Dominosdeildinni.  B-lið Grindavíkur er skipað gömlum tófum en svo mega leikmenn sem eru ekki á meðal 7 mínútuhæstu leikmanna a-liðsins, spila með b-liðinu og voru tvær slíkar í búningi, Viktoría Horne sem átti frábæra innkomu með a-liðinu stuttu áður og Telma Lind Bjarkardóttir sem kom ekki við sögu í fyrri leiknum.

Liðin voru búin að mætast einu sinni í vetur og var þar um öruggan Fjölnissigur að ræða, 90-66 og því mátti kannski fyrirfram búast við öruggum sigri gestanna en heimastúlkur voru ekki á því til að byrja með og leiddu þegar langt var liðið á fyrsta fjórðunginn en Fjölnir átti lokasprettinn og staðan að loknum opnuninni var 14-20.

Sami barningur var í 2. leikhluta, Fjölnir alltaf hænufetinu á undan en Grindavík vann fjórðunginn með 1 stigi og því munaði 5 í hálfleik, 33-38.

Berglind Anna var sú eina hjá Grindavík sem kleif yfir 10 stiga framlagsmúrinn og var með 13 í hálfleik en hjá Fjölni komust þrír leikmenn í fyrirheitna landið, Eygló Kristín (14), Hulda Ósk (13) og Stefanía Ósk (12).

Gestirnir tóku völdin í seinni hálfleik, spurning hvort það hafi verið góðri vörn þeirra að þakka eða að sóknarleikur Grindavíkur klikkaði en þær skoruðu einungis 9 stig á móti 14 hjá Fjölni í 3. leikhluta og því munaði 10 stigum, 42-52 þegar haldið var í lokabardagann.

Það virtist allur vindur vera úr b-liðinu en glöggir muna kannski að það sami henti a-liðið stuttu áður í 4. leikhluta í sínum leik….  Fjölnir setti “quick” 3 körfur og munurinn kominn upp í 16 og það má heita nánast óklýfanlegt fjall í þessari deild þegar svo lítið er eftir.  Fjölnir sigldi sigrinum nokkuð örugglega í höfn og lokatölur 50-70.

Hjá Grindavík báru Berglind Anna hlutskörpust og skilaði hæstu framlagi eða 18 (11 stig og 12 fráköst)

Eygló Kristín bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn í kvöld en hér er mikið efni á ferð.  Hún er hávaxin og nýtir hæðina vel en hún endaði með 18 stig, 15 fráköst, 5 stoðsendingar og 3 varin skot!  Stefanía skilaði líka flottum tölum með 20 í framlag (flott tvenna, 14 stig og 11 fráköst).  Hulda hafði sig minna í frammi í seinni hálfleik en var nálægt tvennunni (6 stig og 12 fráköst).

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leik:

Fréttir
- Auglýsing -