spot_img
HomeFréttirÖruggur heimasigur í Iðu

Öruggur heimasigur í Iðu

FSu vann Breiðablik örugglega í kvöld á heimavelli sínum á Selfossi í 1. deild karla. Lokatölurnar 112-88 en það var þó ekki fyrr en í seinni hálfleik sem FSu sleit sig frá Blikum og byggði upp það forskot sem gestunum tókst aldrei að saxa á neitt að gagni.
 
 
Um miðjan fyrsta leikhluta var FSu komið í 20-12 en Blikar tóku leikhlé, bitu í skjaldarrendur og jöfnuðu leikinn, staðan 31-31 að loknum fyrsta leikhluta. Jafnræði var með liðunum næstu mínútur, eftir 17 var staðan 45-42, en FSu spýtti í lófana fram að hálfleik og leiddi með 10 stigum, 58-48 og varnarleikurinn ekki í fyrirrúmi eins og tölurnar bera með sér.
 
Heimamenn létu svo kné fylgja kviði, byrjuðu seinni hálfleikinn 9-0 og litu ekki til baka eftir það. Eftir þriðja leikhluta var staðan 87-69 og úrslitin ráðin, enda birtust Hildiglúmi engir fyrirboðar á himni um annað. Mestur varð munurinn þrjátíu stig, 104-74, þegar fimm mínútur voru eftir og þremur mínútum seinna 112-82, en gestirnir skoruðu síðustu 6 stigin.
 
Breiðablik var ekki svipur hjá sjón í kvöld miðað við leikinn sem þeir unnu í Iðu í byrjun janúar. Liðið hitti illa fyrir utan, 4/21 í þristum, og lifði fram að hálfleik nokkuð á óþéttri vörn heimamanna, spilaði vel saman og fékk allt of mörg auðveld sniðskot. Jónas Pétur skipti leikmínútunum bróðurlega milli sinna manna, 10 leikmenn spiluðu meira en 10 mínútur og allir yfir 5. Rúnar Ingi Erlingssson var bestur Blikanna með 19 stig, Halldór Halldórsson skoraði 17 og þeir Ásgeir Nikulásson og Jerry Lewis Hollis báðir 12 stig, Hollis bætti við 11 fráköstum, 5 stoðsendingum og 2 vörðum skotum en skotnýting hans verið betri. Egill Vignisson skoraði 9 stig, Snorri Vignisson 7, Breki Gylfason og Sveinbjörn Jóhannesson 4 og þeir Brynjar Karl Ævarsson og Hlynur Logi Víkingsson 2 stig hvor.
 
Það sama var uppi á teningnum hjá Erik Olson. 9 leikmenn voru fengu meira en 10 mínútur og sá tíundi rétt tæplega. Allir komu inn á, nema miðherjinn ungi, Maciej Klimaszewski, sem vanur er að byrja inni á en sat nú á tréverkinu vegna smávægilegra eymsla, og allir skoruðu. Meiri liðsbragur sveif yfir vötnunum í kvöld en í undanförnum leikjum og ef svo heldur fram sem horfir má gera sér væntingar um skemmtilegan körfubolta í úrslitakeppninni sem fram undan er.
 
Collin Pryor var öflugur með 28 stig (67% nýting), 13 fráköst og 4 stoðsendingar, 36 í framlag. Hlynur Hreinsson var góður með 19 stig (5/6 í þristum) á aðeins 20 mínútum og funheitur í upphafi seinni hálfleiks. Erlendur Ágúst skoraði 15 stig og gaf flestar stoðsendingar (6), Ari Gylfason skoraði 13 stig. Hann hefði alveg að ósekju mátt skjóta meira, ekki síst í því ljósi að nýtingin var 100% (4/4) og færin gáfust, en einbeitti sér að því að finna félaga sína. Birkir Víðisson lét vel að sér kveða, 12 stig, 4 fráköst, 5 stoðsendingar, Þórarinn Friðriksson og Arnþór Tryggvason lögðu sitt af mörkum með fyrirmyndarbaráttu, skoruðu báðir 6 stig, og Arnþór bætti við 5 fráköstum á sínum tæpu 10 mínútum. Fraser Malcolm skoraði 5, Geir Elías og Haukur Hreinsson 3 stig hvor og Svavar Ingi 2 stig.
 
 
Það var gaman að sjá unglingaflokkslið FSu spila töluvert langa kafla eitt og óstutt, og halda sjó og vel það. FSu setti með sigrinum pressu á Hamar í keppninni um 2. sætið í deildinni, en Hamar og Höttur eigast við annað kvöld í Hveragerði. Annar toppliðaslagur fer fram að Hlíðarenda þegar Valur mætir ÍA. Þetta eru mikilvægir leikir í stöðubaráttunni fyrir úrslitakeppnina.
 
Umfjöllun: Gylfi Þorkelsson
 
Gestur Einarsson frá Hæli lét sig heldur ekki vanta í Iðu í kvöld og ræddi við menn eftir leik:
 
Halldór Halldórsson – Breiðablik
 
Fraser Malcom
 
  
Fréttir
- Auglýsing -