TCU tók á móti Wyoming skólanum í bandarísku háskóladeildinni um helgina og hafði öruggan heimasigur á velli sínum Daniel Meyer Coliseum. Lokatölur voru 78-59 TCU í vil þar sem Helena Sverrisdóttir var stigahæst í liði TCU með 19 stig.
Helena var venju samkvæmt í byrjunarliðinu og lék í 28 mínútur í leiknum. Auk þess að salla niður 19 stigum var Helena með 6 stoðsendingar og 5 fráköst. Eftir sigurinn trónir TCU á toppi Mountain West deildarinnar með 9 sigra og 2 tapleiki í deildinni en á tímabilinu hefur TCU unnið 19 leiki og aðeins tapað 5. Jafnframt var sigurinn um helgina sá fjórði í röð hjá TCU.
Þá unnu María Ben Erlingsdóttir og liðsfélagar hennar í UTPA sinn annan sigur í röð þegar Utah Valley skólinn kom í heimsókn í UTPA Fieldhouse. María var ekki í byrjunarliðinu að þessu sinni en gerði 16 stig í leiknum, tók 1 frákast og gaf 1 stoðsendingu á 38 mínútum.



