spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÖruggur Haukasigur á Flúðum

Öruggur Haukasigur á Flúðum

Eini leikur dagsins var leikinn á Flúðum. Hrunamenn tóku á móti Haukum í 1. deild karla. Fyrir leikinn voru Haukar efstir á töflunni ásamt Álftanesi en Hrunamenn í 8. sæti, fyrir ofan Hamar og ÍA. Fyrr í haust áttust liðin við á Ásvöllum þar sem Haukar unnu með 36 stiga mun.

Eftir jafna byrjun sigu Haukarnir fram úr. Eftir leikhlé Hrunamanna um miðjan fjórðunginn gerðu þeir breytingar á liði sínu og leikskipulagi sem skiluðu ágætum árangri. Yngstu menn liðsins, Óðinn Freyr Árnason og Hringur Karlsson komu inn og léku ljómandi fínan varnarleik. Óðinn Freyr bætti um betur á sóknarhelmingnum og skoraði þriggja stiga körfu í þremum sóknum í röð. Maté þjálfari Hauka tók leikhlé og lagfærði það sem þurfti að lagfæra og Haukarnir sigldu aftur 10 stigum fram úr heimamönnum.

Í 2. fjórðungi náðu Hrunamenn öðru áhlaupi þar sem Dagur Úlfarsson og Clayton Ladine stöðvuðu fyrstu sóknir Hauka og Clayton og Orri Ellertsson náðu að skora þriggja stiga körfur eftir stuttar en góðar sóknir. Aftur tók Maté leikhlé sem skilaði sér í bættum leik Hauka. Alex Rafn Guðlaugsson var settur til höfuðs Claytons og stóð þá vakt með sóma. Seinna í leiknum fékk hann það hlutverk að gæta Karlo Lebo sem er mjög hreyfanlegur og bæði stór og sterkur. Það gerði Alex líka með sóma. Kristófer Tjörvi gerði vel í að ná sóknarfráköstum fyrir Hrunamenn. Bæði lið hlupu kerfin sín vel og tókst yfirleitt að ljúka sóknum sínum með því að finna frían leikmann sem náði skoti á körfuna. Munurinn á liðunum var sá að Haukar hittu sínum skotum en ekki Hrunamenn. 2ja stiga skotnýting Hauka var 61% en Hrunamanna 35%. Munurinn á liðunum var kominn í 19 stig og Haukarnir betri á flestum sviðum leiksins.

This image has an empty alt attribute; its file name is 3-1-1024x171.png

Í seinni hálfleik reyndu Hrunamenn að ná áhlaupum en Haukarnir héldu þeim frá sér með því að leggja áherslu á að leika öfluga vörn. Þar fór fremstur í flokki Emil Barja. Hann setti tóninn fyrir félaga sína. Emil spilar allar mögulegar stöður í vörn. Hann var stundum annar tveggja framliggjandi varnarmanna í svæðisvörn og stundum lék hann undir körfunni í svæðisvörn þar sem hann mætti hærri og þyngri leikmönnum án þess að komast í teljandi vandræði. Haukarnir léku vel. Árni Þór hleypti ungu mönnunum aftur á völlinn en þeir launuðu honum ekki traustið með sama hætti og þeir höfðu gert í fyrsta fjórðungi.

Skilvirkni er vinsælasta hugtak körfuboltans á Íslandi í dag. Það er e.t.v. lýsandi orð fyrir leik Haukamannsins hávaxna, Shemar Deion Bute. Staðsetningar hans og aðgerðir, bæði í vörn og sókn, eru skilvirkar. Deion virðist ekki vera í hópi hæfileikaríkustu leikmanna deildarinnar en með hæðinni og löngu handleggjunum hefur hann þau áhrif á skot andstæðinganna að þau verða léleg og rata ekki rétta leið. Þar að auki lætur hann andstæðinginn finna vel fyrir sér og fer eins langt og dómaranir hleypa honum með hrindingum og bömpi. Hans framlag kemur ekki allt fram á tölfræðiskýrslunni, ekki frekar en framlag Emils og Alex Rafns. Þeir þrír áttu allir prýðisleik. Orri Gunnarsson var líka góður og Jose Medina lék ágætlega en albesti leikmaður Hauka var Jeremy Herbert Smith sem skoraði 32 stig, tók 16 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Lokatölur á Flúðum: Hrunamenn 76 – Haukar 120. Haukar halda efsta sætinu í deildinni og sitja nú einir á toppnum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Birgitte Bruger)

Umfjöllun, viðtal / Karl Hallgrímsson

Fréttir
- Auglýsing -