spot_img
HomeFréttirÖruggt hjá Haukum

Öruggt hjá Haukum

  Það var ekki spurning hvoru meginn sigurinn myndi lenda í leik Njarðvíkur og Hauka en Hafnarfjarðarliðið vann yfirburðarsigur 61-94. Það er þá ljóst að Haukar munu mæta Grindavík sem tapaði fyrir KR í kvöld en Njarðvík situr eftir með sárt ennið. Möguleikar Njarðvíkur urðu að engu í kvöld þegar Snæfell sigraði Val en Njarðvík og Snæfell eru jöfn af stigum en 38 stiga sigur Snæfellinga á Njarðvíkingum í febrúar gaf þeim innbyrgðis viðureignina.
Leikurinn var jafn í upphafi og ljóst að grænar ætluðu að selja sig dýrt enda mikið í húfi fyrir þær. Liðin skiptust á að taka forystuna framan af eða þangað til að Haukar náðu nokkra stiga forskoti. Heather Ezell var drjúg fyrir Hauka og var komin með 10 stig snemma í leikhlutanum. Munurinn var ekki nema fimm stig, Haukum í vil þegar leikhlutanum lauk 14-19.
 
Ólöf Pálsdóttir minnkaði muninn fyrir Njarðvík í 16-19 þegar um tvær mínútur voru búnar af öðrum leikhluta. Haukaliðið kom þá með góðan sprett fyrir þær og skoruðu 11 stig gegn tveimur Njarðvíkinga og breyttu stöðunni í 18-30. Munurinn á liðunum varð stærri og stærri og leiddu Haukar með 17 stigum í hálfleik, 26-43.
 
Njarðvíkingar áttu fá svör gegn sterku liði Hauka í upphafi seinni hálfleiks. Áfram héldu Haukar að salla niður stigum á meðan minna gekk upp hjá Njarðvíkurliðinu og juku Haukar muninn enn frekar. Þegar rúmur tæpur helmingur var eftir af leikhlutanum voru Haukar komnir með 30 stiga forystu og ljóst að rauðir ætluðu að klára deildarkeppnina með stíl. Þannig var munurinn á liðunum eftir þriðja leikhluta eða 39-69.
 
Seinasti leikhlutinn var nokkuð jafn. Njarðvík náði að halda í við Haukaliðið sem vann þó leikhlutann með þremur stigum og unnu leikinn á endanum með 33 stigum 61-94.
 
Stigahæst hjá Haukum var sem fyrr Heather Ezell með 33 stig, 13 fráköst og 8 stoðsendingar. Næst henni var Telma Fjalarsdóttir með 15 stig og 6 fráköst.
 
Hjá Njarðvík var Ólöf Pálsdóttir atkvæðamest með 17 stig og 5 fráköst og Auður Jónsdóttir var henni næst með 13 stig og 7 fráköst.
 
Ljósmynd/ Hilmar Bragi Bárðarson Ólöf Helga í frákastabaráttunni gegn Haukum.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -