spot_img
HomeFréttirÖrlög íslenska liðsins ráðast erlendis

Örlög íslenska liðsins ráðast erlendis

Nú sígur á seinni hluta undankeppni HM 2019 sem fer fram í Kína. Í Evrópu eru 32 lið í undankeppninni og næstu tveir leikir munu skera úr um örlög íslenska liðsins. Eins og staðan er í dag yrðu það Tékkar, Íslendingar og Finnar sem færu áfram í aðra umferð undankeppninnar en margt getur þó breyst þessa síðustu tvo leiki sem eftir eru í fyrstu umferð.

Í undankeppni HM í Evrópu eru 32 lið, leikið er í sex gluggum og það eru á endanum 12 lið sem komast á HM í Kína. Þessi fyrsta umferð sem nú er senn á enda telur 32 lið í 8 riðlum þar sem leikið er heima og að heiman. Þrjú efstu liðin í hverjum riðli komast áfram inn í aðra umferð.

 

Í annarri umferð verða fjórir sex liða riðlar þar sem liðin munu taka með sér úrslitin úr 1. umferð inn í riðilinn í 2. umferð. Í þessari annarri umferð verður leikið í þremur gluggum heima og að heiman í september og nóvember 2018 og í febrúar 2019. Þrjú efstu lið hvers riðils í annarri umferð munu komast á HM. Það er nú þegar ljóst að þau þrjú lið sem fara áfram úr riðli Íslands mæta liðum úr E riðli. Þar eru Frakkar efstir, svo koma Rússar, þá Bosníumenn og Belgar reka lestina, hafa ekki unnið leik. Það er því líklegt að Ísland mæti Frökkum, Rússum og Bosníumönnum í haust og vetur, komist Ísland áfram.

 

Íslenska liðið hélt í morgun af stað til Búlgaríu þar sem liðið mætir heimamönnum á föstudag í Botevgrad Arena. Leikurinn hefst kl. 18:00 að staðartíma eða 15:00 að íslenskum tíma en Búlgarir gerðu góða ferð til Íslands í nóvember síðastliðnum með 74-77 sigri gegn okkar mönnum. Hér dugir okkur fátt annað en sigur en Tékkar og Finnar mætast sama dag í Tékklandi.

 

Lokaumferð riðilsins fer fram 2. júlí þegar Ísland mætir aftur til Helsinki og leikur gegn Finnlandi. Til að gera langa sögu stutta þá er leikurinn gegn Búlgaríu á föstudag leikurinn þar sem allt er undir fyrir okkur. Ekkert annað en sigur kemur til greina ef íslenska liðið ætlar sér að vera á meðal þeirra liða sem siglir inn í aðra umferð. Það verður enginn hægðarleikur að fara með bakið uppi við vegg til Helsinki!

 

Í gær var 12 manna hópurinn kynntur til leiks sem standa mun vaktina þessa síðustu tvo leiki og freista þess að koma íslenska liðinu áfram inn í aðra umferð keppninnar. Tveir nýliðar eru í hópnum þeir Breki Gylfason og Hjálmar Stefánsson. Hlynur Bæringsson leiðir hópinn með 120 landsleiki á bakinu og eins og áður hefur komið fram verður Jón Arnór Stefánsson ekki með í þessum leikjum. Við á Karfan.is tippum á að byrjunarliðið gegn Búlgaríu verði svona:

 

Elvar Már Friðriksson
Martin Hermannsson
Haukur Helgi Pálsson
Hlynur Bæringsson
Tryggvi Snær Hlinason

 

Hvað Craig, Finnur og Baldur Þór gera með byrjunarliðið á svo eftir að koma í ljós á leikdegi en þið hélduð þó ekki að við myndum sleppa því að fabúlera aðeins um byrjunarliðið! Báðir landsleikirnir verða í beinni á RÚV.

 

 

Fréttir
- Auglýsing -