Hér fyrir neðan eru nokkur af þeim atriðum sem Körfunni hafa borist til eyrna á síðustu dögum er varða leikmenn, þjálfara og félög á Íslandi. Tekið skal fram að hér er um að ræða óstaðfestar fregnir og því ber að taka þeim sem slíkum.
- Íslandsmeistarar Stjörnunnar eru sagðir við það að semja við Giannis Agravanis fyrrum leikmann Tindastóls og Pablo Bertone fyrrum leikmann Vals.
- Samkvæmt orðinu á götunni gæti verið að einn besti leikmaður Bónus deildarinnar á síðustu leiktíð Hilmar Smári Henningsson muni semja við lið í Evrópu fyrir komandi leiktíð, þó svo hann hafi gert áframhaldandi samning við Íslandsmeistara Stjörnunnar nú í sumar.
- Heyrst hefur að Viðar Ágústsson hafi tekið skóna fram á nýjan leik og hafi æft með silfurliði Tindastóls í sumar.
- Þá eru Stólarnir einnig sagðir vilja bæta í þjálfarahóp sinn fyrir komandi tímabil og er orðið á götunni að þeir hafi heyrt í Kristjáni Pétri Andréssyni aðstoðarþjálfara ÍR.
- Talið er líklegt að Zarko Jukic semji á nýjan leik við ÍR fyrir komandi tímabil.
- Þá hefur sú saga heyrst á nokkrum kaffistofum að mögulega vilji Frank Aaron Booker leikmaður Vals finna sér nýtt félag fyrir komandi leiktíð.
- Talið er líklegt að Breki Gylfason leiki með fyrstu deildar liði Hauka á komandi leiktíð.
- Leikmaður Hauka Ágúst Goði Kjartansson er talinn líklegur til þess að ganga til liðs við ÍA fyrir komandi leiktíð í Bónus deild karla.
- Þá er ÍA einnig sagt á eftir fyrrum leikmanni Þórs Akureyri og Grindavíkur Ivan Aurrecoechea.
- Fyrrum leikmaður Sindra Hringur Karlsson er sagður líklegur til að ganga til liðs við Hamar eða Keflavík fyrir komandi leiktíð.
- Hanna Þráinsdóttir leikmaður Aþenu er samkvæmt orðinu á götunni að íhuga að semja við Hamar/Þór.
- Samkvæmt orðinu mun Vestri vera nálægt því að semja við Jonathan Braeger fyrir komandi leiktíð.
- Heyrst hefur að Óli Gunnar Gestsson muni annaðhvort semja við uppeldisfélag sitt í KR eða Hauka fyrir næsta tímabil eftir áralanga dvöl í bandaríska háskólaboltanum.
- Enn er talið líklegt að fyrrum landsliðskonan Hallveig Jónsdóttir muni draga skóna fram á nýjan leik og vera með KR á komandi tímabili.
- Samkvæmt orðinu á götunni mun ungstirni Stjörnunnar Jakob Leifsson vera líta í kringum sig fyrir komandi tímabil. Líklegastir áfangastaða eru taldir KR eða Breiðablik, fari svo hann yfirgefi Íslandsmeistara Stjörnunnar.
- Leikmaður Þórs Ragnar Örn Bragason er enn samningslaus fyrir komandi tímabil. Samkvæmt orðinu á götunni hefur hann átt í samtali við Þór, Grindavík, Fjölni og Keflavík.
- Grindvíkingar eru einnig sagðir vilja semja aftur við Jeremy Pargo.
Orðið á götunni er einungis til gamans og ef fólk hefur ábendingar um slúður skal hafa samband á [email protected]



