Hér fyrir neðan eru nokkur af þeim atriðum sem Körfunni hafa borist til eyrna á síðustu dögum er varða leikmenn, þjálfara og félög á Íslandi. Tekið skal fram að hér er um að ræða óstaðfestar fregnir og því ber að taka þeim sem slíkum.
- Samkvæmt orðinu á götunni mun Stjarnan mögulega skrá nýjan leikmann sinn Pablo Bertone í KFG svo hann verði sneggri að taka út fimm leikja bann sem hann fékk síðast þegar hann spilaði á Íslandi.
- KR eru samkvæmt orðinu á götunni við það að semja við Hönnu Þráinsdóttur leikmann Aþenu, en hún hefur verið með Vesturbæjarfélaginu í æfingaleikjum síðustu daga.
- Þrátt fyrir að hafa bætt vel í hóp sinn af atvinnumönnum eru Íslandsmeistarar Stjörnunnar enn að leita að leikmönnum og samkvæmt orðinu á götunni er talið allt eins líklegt að einhverjum þeirra sem tilkynnir hafi verið verði sýndur reisupassinn.
- Samkvæmt orðinu á götunni er einn þessara leikmanna sem Stjarnan hefur skoðað fyrrum leikmaður Grindavíkur Jeremy Pargo.
- Þá er Vinnie Shahid sem lék með Þór tímabilið 2022-23 orðaður við endurkomu til Íslands. Lið sem sögð eru hafa skoðað möguleika þess að semja við leikmanninn knáa eru Grindavík, Stjarnan og Þór.
- Nokkuð mörg lið eru sögð á eftir Ragnari Erni Bragasyni. Samkvæmt orðrómi eru Grindvíkingar spenntastir fyrir að semja við hann, en hann er einnig sagður með tilboð á borðinu frá Keflavík, Þór Hamri og Ármann.
- Talið er líklegt að Ólöf Helga Pálsdóttir taki við sem stjórnandi Körfuboltakvölds kvenna af Herði Unnsteinssyni.
- Fyrrum leikmaður Grindavíkur Sofie Tryggesen er sögð líkleg til þess að semja við lið í Bónus deild kvenna. Líklegir áfangastaðir eru taldir KR eða Ármann.
- Fyrrum leikmaður Keflavíkur Igor Maric er sagður undir smásjánni hjá ÍR og Breiðablik.
- Fyrrum leikmaður Keflavíkur, Njarðvíkur, Þórs, Tindastóls, Hattar og Þórs Akureyri Sveinbjörn Skúlason er samkvæmt orðinu á götunni talinn líklegur til að taka skóna fram á nýjan leik og vera með Hamri b í þriðju deildinni í vetur.
- Hafnfirðingurinn Ágúst Goði Kjartansson er talinn líklegur til þess að fara aftur til Þýskalands, fari svo hann velji ekki að spila með ÍA í Bónus deild karla.
Orðið á götunni er einungis til gamans og ef fólk hefur ábendingar um slúður skal hafa samband á [email protected]



