spot_img
HomeFréttirÖnnur ótímabær kraftröðun Dominos deildar kvenna

Önnur ótímabær kraftröðun Dominos deildar kvenna

Mánaðarlega mun Karfan birta kraftröðun á komandi tímabili. Þar er ekki aðeins tekin til staða liðanna í deildinni, heldur einnig breytingar á leikmannahópum og það gengi, eða sú sveifla sem liðið er í á hverri stundu.

Fyrsta kraftröðun tímabilsins var gerð í byrjun ágúst, því alveg kominn tími á nýja. Þar er rýnt í stöðu liðanna á þessu tímabili og reynt að spá fyrir um möguleika þeirra. Tekið skal fram að röðunin er til gamans gerð enda ekki allt vatn runnið til sjávar og því líklegt að röðin muni sveiflast mikið í næstu kraftröðun.

Samkvæmt stigagjöfinni eru Keflavík, Stjarnan, Snæfell og Valur fjögur bestu lið landsins þessa stundina, þar sem nokkuð langt er í næsta hóp liða. Í 5.-7. sætinu eru svo nokkuð jöfn Skallagrímur, Breiðablik og Haukar. Nokkuð fall er svo að lokum í KR í neðsta sætinu.

Hérna er hægt að hlusta á Podcast Körfunnar ræða bæði hvernig staðið er að þessu, sem og ástæður stöðu liðanna.

Hérna er hægt að skoða lista yfir allar leikmannahreyfingar liðanna fyrir tímabilið.

#1: Keflavik

Þrátt fyrir að hafa misst besta leikmann Íslandsmótsins 2017 hefur liðið bætt það miklu við sig að það verður í baráttunni á toppnum á ný. Það verður gríðarlega mikilvægt fyrir Keflavík að Emelía Ósk og Þóranna snúi aftur á völlinn sem fyrst. Svo er MG10 kominn á bekkinn með liðinu og verður fróðlegt að sjá hvort skotnýting liðsins batni á komandi tímabili.

Spennan er mikil fyrir „Litlu slátrurunum“þetta tímabilið sem eru alls ekkert litlir lengur og fá nú formlega viðurnefnið „Slátraranir“ fyrir komandi tímabil.

Breyting: Engin

Komnar:

Jón Guðmundsson (þjálfari)

Bryndís Guðmundsdóttir frá Snæfell (úr barneignarleyfi)

María Jónsdóttir frá Njarðvík

Telma Lind Ásgeirsdóttir frá Breiðablik

Farnar:

Thelma Dís Ágústsdóttir til Ball State University (USA)

Sverrir Þór Sverrisson (þjálfari)

 

#2: Stjarnan

 Garðbæingar virðast hafa ákveðið að bæta stærsta veikleika sinn frá síðustu leiktíð en það var breiddarleysi liðsins. Hvorki fleiri né færri en sjö leikmenn hafa samið við liðið auk þess sem liðið hefur einungis misst einn leikmann sem lék með liðinu þegar síðasta tímabili lauk. Það er valin kona í hverju sæti auk þess sem Danielle Rodriquez verðu áfram hjá liðinu og gæti fengið meiri hjálp en síðustu ár.

Spurningamerkið er samt áfram, hvað verður um Rögnu Margréti? Með hana í liðinu er Stjarnan án efa með einn sterkasta hóp landsins ef ekki þann allra sterkasta.

Breyting: Upp um eitt sæti

Komnar:

Auður Íris Ólafsdóttir frá Breiðablik

Jóhann Björk Sveinsdóttir frá Skallagrím

Sólrún Sæmundsdóttir frá Skallagrím

Ragnheiður Benónýsdóttir frá Val

Alexandra Eva Sverrisdóttir frá Njarðvík

Vigdís María Þórhallsdóttir frá Grindavík

Florenciu Palacios frá Svíþjóð

Farnar:

Bryndís Hanna Hreinsdóttir til Breiðabliks

Sylvía Rún Hálfdánardóttir til Þór Ak

 

#3: Snæfell

Það er hugur í Hólmurum fyrir tímabilið. Óskasystur Stykkishólms mæta til leiks í hörkuformi en Gunnhildur missti af lunganu af síðasta tímabili. Snæfell hélt kjarnanum frá síðustu leiktíð og bætti við sterkum leikmönnum í sumar. Kristen verður áfram og þá er hinn síungi Baldur Þorleifsson tekinn við skútunni.

Hólmarahjartað er sterkt í þessum hóp og nokkuð ljóst að danska verður töluð á öllum sunnudögum í vetur. Snæfell er lið sem gæti auðveldlega komið sér í algjöra toppbaráttu í vetur.

Breyting: Upp um eitt sæti

Komnar:

Baldur Þorleifsson (þjálfari)

Heiða Hlín Björnsdóttir frá Þór Ak

Katarina Matijosie frá Króatíu

Angelika Kowalska frá Cournon D’Auvergne (Frakklandi)

Farnar:

Ingi Þór Steinþórsson til KR (þjálfari)

Sara Diljá Sigurðardóttir til Fjölnis

 

#4: Valur

Úr úrslitaeinvíginu í fjórða sætið á nokkrum mánuðum hjá liði sem heldur nánast sama leikmannahóp og á síðasta tímabili, eða hvað? Að hafa misst Elínu Sóley og Ragnheiði veikir stöðuna undir körfunni verulega. Ásta Júlía er klárlega mikið efni og á eftir að leysa stöðuna með stakri prýði en hún gerir það ekki ein í vetur. Það er áhyggjuefni fyrir Darra og Valsliðið. Þar fyrir utan getur liðið vel byggt á síðasta tímabili þar sem Valskonur voru á köflum frábærar.

Annað tímabilið hjá Darra með Val og verður spennandi að sjá hvernig liðið kemur undan sumri. Hann talaði um að breyta hugafari leikmanna úr þátttakendum í sigurvegara og fáum við að sjá afrakstur af því í vetur nú þegar liðið var hársbreidd frá þeim stóra á síðustu leiktíð.

Breyting: Niður um tvö sæti

Komnar:

Marín Matthildur Jónsdóttir frá KR

Brooke Johnson frá UNLV (USA)

Farnar:

Elín Sóley Hrafnkelsdóttir til Tulsa (USA)

Ragnheiður Benónýsdóttir til Stjörnunnar

Bylgja Sif Jónsdóttir til ÍR

 

#5: Skallagrímur

Borgnesingar mæta aftur með gjörbreytt lið til leiks. Liðið hefur misst fjóra íslenska leikmenn og gætu fleiri átt eftir að fara sömu leið á næstu vikum. Á dögunum spilaði Skallagrímur æfingaleik þar sem liðið var með sex leikmenn á skýrslu. Það gefur augaleið að æfingar liðsins eru ekki frábærar þegar þær telja sex leikmenn og því spurning hvernig liðið kemur til leiks. Skallagrímur mun hinsvegar tefla fram fjórum erlendum leikmönnum sem gæti reynst nóg til að vinna nokkra leiki og koma sér ofar í töflunni.

Það er algjört lykilatriði að Ari Gunn nái fram góðri stemmningu í kringum liðið líkt og honum tókst seinni hluta síðasta tímabils. Takist það verður erfitt að mæta í Fjósið á næsta tímabili og taka sigur.

Breyting: Upp um tvö sæti

Komnar:

Karen Dögg Vilhjálmsdóttur frá Njarðvík

Bryeasha Blair frá South Carolina State

Maja Michalska frá Southeastern University (USA)

Shequila Joseph frá Fassi Edelweiss Albino (Ítalíu)

Ines Kerin frá Eveil Garnachois Basket Vendée (Frakkland)

Farnar:

Jóhanna Björk Sveinsdóttir til Stjörnunnar

Carmen Tyson-Thomas til Ástralíu

Sólrún Sæmundsdóttir til Stjörnunnar

Fanney Lind Thomas hætt

Bríet Líf Sigurðardóttir til Hauka

 

#6: Breiðablik

 Mikil leikmannavelta hefur verið í Smáranum í vetur. Sex leikmenn eru komnir inn og fjórir hafa yfirgefið það. Liðið verður skipað mörgum ungum og efnilegum leikmönnum en mögulega eru of margir svipaðir leikmenn á sama stað. Það gæti enn vantað uppá gæði í liðinu til að koma sér í efri hluta deildarinnar. Það gætu margir leikmenn sprungið út á tímabilinu og því enganvegin hægt að afskrifa Blika.

Spennandi verður að fylgjast með handbragði Möggu Stull hjá Blikum en það er öruggt að ekkert verður gefið eftir á vellinum.

Breyting: Engin

Komnar:

Margrét Sturlaugsdóttir (þjálfari)

Björk Gunnarsdóttir frá Njarðvík

Erna Freydís Traustadóttir frá Njarðvík

Bryndís Hanna Hreinsdóttir frá Stjörnunni

Hulda Ósk Bergsteinsdóttir frá Njarðvík

Ragnheiður Björk Einarsdóttir frá Haukum

Þórdís Jóna Kristjánsdóttir frá Haukum

Kelly Faris frá Bnot Hertzeliya (Ísrael)

Farnar:

Hildur Sigurðardóttir (þjálfari)

Telma Lind Ásgeirsdóttir til Keflavíkur

Auður Íris Ólafsdóttir til Stjörnunnar

Lovísa Falsdóttir í barneignarleyfi

Kristín Rós Sigurðardóttir í ÍR

Whitney Kiera Knight óljóst

 

#7: Haukar

 Íslandsmeistararnir misstu einfaldlega of stóran bita í bestu körfuknattleikskonu Íslands frá upphafi, Helenu Sverrisdóttur. Auk þess verðu Dýrfinna Arnardóttir ekki með en það sást best í úrslitakeppninni í fyrra hversu mikilvæg hún er fyrir liðið. Lele Hardy er hinsvegar mætt aftur á Ásvelli og verður fróðlegt að sjá hvað henni tekst að galdra fram. Efniviðurinn er til staðar í Hafnarfirði en erfitt að sjá liðið gera gloríur á komandi leiktíð

Flestir leikmenn liðsins þekkja það núna að vinna leiki og bikara sem gæti reynst liðinu vel í komandi baráttu. Ólöf Helga fær að minnsta kosti verðugt verkefni í eldskírn sinni sem þjálfari í efstu deild.

Breyting: Niður um tvö sæti

Komnar:

Lele Hardy frá Tapiolan Honka (Finnland)

Ólöf Helga Pálsdóttir frá Grindavík (þjálfari)

Bríet Lilja Sigurðardóttir frá Skallagrím

Eva Margrét Kristjánsdóttir byrjar aftur eftir pásu

Akvile Baronenaite frá Litháen

Farnar:

Helena Sverrisdóttir til Cegled, Ungverjalandi

Ingvar Þór Guðjónsson (þjálfari)

Ragnheiður Björk Einarsdóttir til Breiðabliks

Þórdís Jóna Kristjánsdóttir til Breiðabliks

Dýrfinna Arnardóttir frí vegna meiðsla

 

#8: KR

 Spurningin sem brennur á vörum körfuboltaáhugafólks þessar vikurnar: Hvað er að frétta af KR? Svarið er nákvæmlega ekkert. Engin leikmaður hefur komið til nýliðanna enn sem komið er. KR er nánast nákvæmlega eins mannað og það var í fyrra. Liðið tapaði ekki leik í deild á síðustu leiktíð og því kannski óþarfi að hrista upp í hlutunum. Ungt og efnilegt lið sem fær loks að spreyta sig í deild þeirra bestu.

KR klífur ekki ofar á kraftröðun fyrr en það kemur frekar í ljós hvernig liðið verður í byrjun tímabils. Enn eru of mörg spurningamerki í DHL-höllinni.

Breyting: Engin

Komnar:

Farnar:

Gunnhildur Bára Atladóttir erlendis

Alexandra Petersen til Fjölnis

Marín Matthildur Jónsdóttir til Vals

Fréttir
- Auglýsing -