„Áfram Ísland“ heyrðist úr stúkunni löngu eftir leik, stuðningsmennirnir fóru algerlega á kostum, engu síðri en íslenska landsliðið sem mátti samt fella sig við sárgrætilegt 64-71 tap gegn Ítalíu í öðrum leik sínum á EuroBasket í Berlín. Strákarnir okkar þökkuðu þennan öfluga stuðning í fullar 40 mínútur og líka eftir leik, það var ekki laust við að þeir væru hrærðir. Frammistaða liðsins og stuðningsmanna hefur vakið verðskuldaða athygli og nú leitar íslenska liðið logandi ljósi að því að jarða þennan herslumun sem hefur vantað og freistar þess að slæða sér í sigur.
Já við sögðum sigur! Hugarfar okkar manna er risavaxið, annars væru þeir ekki hér! Stundin sem stuðningsmenn og liðið áttu hér saman eftir leik er ein af þeim glæstari í íslenskri körfuboltasögu, þrátt fyrir ósigur því svona samstaða leiðir einungis gott eitt af sér. Íslenska landsliðið bauð aftur upp á heimsklassa frammistöðu en mátti aftur þola að tapa leiknum. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt í íþróttunum.
Þá að leiknum sjálfum, Ítalir hafa sagt eftir leikinn að þetta hafi ekki verið þeirra besta frammistaða…má vera en staðreyndin er einfaldlega sú að þeir lentu í öskrandi vandræðum gegn samstillri vörn Íslands.
Ítalir óðu beint inn í teig og Alessandro Gentile fékk þar körfu og villu að auki, smá svona „ég er sterkari en þú“ yfirlýsing strax á fyrstu sekúndunum en Gentile átti eftir að setja þær fleiri. Íslenska óveðrið skall þó strax á Ítölunum, þegar skotklukkan var að renna út stimplaði Jón Arnór sig inn í leikinn með þrist og úr varð skotkeppni næstu mínúturnar. Fjörug byrjun þar sem íslenska liðið tók sex þriggja stiga skot og eitt teigskot á fyrstu sex mínútum leiksins!
Ítalir komust í 15-22 en þá réðist Hlynur Bæringsson í teiginn í tvígang og skoraði af miklu harðfylgi og minnkaði muninn í 19-22 og skömmu síðar var Haukur Helgi á ferðinni og gerði síðustu stig leikhlutans og Ítalir leiddu 21-22 að honum loknum. Skotfjörið lagðist af undir lok fyrsta leikhluta og Ísland dýpkaði vopnabúrið með því að sækja á körfuna.
Logi Gunnarsson kom með ferskan vind inn í liðið í öðrum leikhluta, var öflugur á báðum endum vallarins en tilþrif Íslands í fyrri hálfleik voru líklega þegar Martin Hermannsson fíflaði ítölsku vörnina upp úr skónum og kláraði svo með „floater“ og jafnaði 25-25. Haukur Helgi Pálsson snögghitnaði og Ísland náði flottu áhlaupi og komst í 37-31 en þá datt botninn úr sóknarleiknum okkar. Ítalir lokuðu fyrri hálfleik með 10-0 áhlaupi og leiddu 37-41 í hálfleik. Okkar menn gerðu sig seka um klaufaskap á lokasekúndunum og það bara leyfist ekki á þessu sviði enda nýttu Ítalir það til hins ítrasta og refsuðu með körfum.
Haukur Helgi Pálsson var með 11 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar í hálfleik og Hlynur Bæringsson var með 7 stig og 2 fráköst. Gentile var með 14 stig í ítalska liðinu í hálfleik en Danilo Gallinari lék aðeins rúmar þrjár mínútur í fyrri hálfleik en hann fékk snemma tvær villur.

Í fyrsta leikhluta settu Ítalir 22 stig á okkur, svo 19 í öðrum hluta en í þeim þriðja einungis 11! Varnarleikur íslenska liðsins var til fyrirmyndar og Hlynur Bæringsson minnkaði muninn í 44-45 með þriggja stiga körfu. Þriðji leikhluti einkenndist af varnarleiknum hjá báðum liðum, lítið skorað og fór hann 11-11. Ítalir leiddu því 48-52 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Jakob Örn Sigurðarson jafnaði leikinn 52-52 snemma í fjórða leikhluta með öflugu gegnumbroti en aftur vorum við að sjá Ítalina slíta sig hratt aftur frá íslenska liðinu. Sama sagan fór þá í gang, við söxuðum forskotaði aftur hægt og bítandi. Haukur Helgi setti svellkaldan þrist 57-59 þegar fimm mínútur voru eftir og þegar Ísland komst í 62-59 og þrjár mínútur til leiksloka varð andrúmsloftið kyngimagnað.
Aftur, eins og hendi væri veifað settu Ítalir snögg sex stig á okkar menn, nokkrir dómar á ferðinni sem voru stórlega vafasamir en ósigurinn verður ekki skrifaður á neitt svoleiðis. Ítalir kláruðu einfaldlega betur og sluppu út úr Mercedes Benz Arena með sigur, 64-71.
Um leið og lokaflautið gall tók svo við þessi eftirminnilega stund þegar íslensku stuðningsmennirnir héldu áfram að hvetja liðið löngu eftir leikinn. Okkar menn kunna gott að meta og þökkuðu innilega fyrir sig. Algerlega magnað „móment.“
Haukur Helgi Pálsson gerði 17 stig í dag, tók 5 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Næstur honum var Hlynur Bæringsson með 14 stig og 7 fráköst og Jón Arnór Stefánsson bætti við 11 stigum og 6 stoðsendingum. Þá áttu þeir Martin, Jakob, Logi og Hörður Axel einnig virkilega fína spretti í dag.



