Gríska liðið Olympiacos hefur ekki sagt sitt síðasta á leikmannamarkaðnum í sumar. Fyrir skemmstu nældu þeir sér í gríska goðsögn þegar Vassilis Spanoulis gekk í raðir liðsins frá erkifjendunum í Panathiniakos og nú hafa Olympiacos bætt við sig ástralska landsliðsmanninum Matt Nielsen.
Nielsen kemur frá Valencia á Spáni þar sem hann var með 10,1 stig og 5,2 fráköst að meðaltali í leik í Eurocup keppninni á síðasta tímabili en Valencia vann keppnina og það í annað sinn.
Nielsen hefur leikið með Sydney Kings í heimalandi sínu og þá hefur hann m.a. komið við áður í Grikklandi, Spáni og Litháen.
Valencia þurfa þó ekki að örvænta við brotthvarf Nielsens þar sem þeir hafa gert tveggja ára samning við Robertas Javtokas frá Khimki. Javtokas átti sterkt tímabil með Khimki í meistaradeild Evrópu á síðasta ári þar sem hann gerði 10,1 stig og tók 6,4 fráköst að meðaltali í leik í meistaradeildinni.
Ljósmynd/ Euroleague: Matt Nielsen snýr aftur til Grikklands.



