spot_img
HomeFréttirÓlseigir KR-ingar héldu voninni lifandi með sigri gegn Keflavík

Ólseigir KR-ingar héldu voninni lifandi með sigri gegn Keflavík

KR lagði Keflavík á Meistaravöllum í kvöld í 18. umferð Subway deildar karla. Eftir leikinn er Keflavík í 3. sæti deildarinnar með 24 stig á meðan að KR er í 12. sætinu með 6 stig.

Fyrir leik

KR hafði veika von um að halda sér í efstu deild með sigri í leik kvöldsins. Þetta var þó virkilega veik von þar sem að fyrir hann var KR nokkrum sigurleikjum fyrir neðan ÍR í 11. sæti og enn fleirum fyrir neðan Hött og Stjörnuna í 9.-10. sætinu. Ekki er aðeins nóg fyrir KR að vinna restina af leikjum sínum, heldur þurfa þeir einnig að vona að þessi lið töpuðu sínum leikjum.

Í fyrri umferð deildarinnar þann 25. nóvember hafði Keflavík nokkuð öruggan sigur gegn KR heima í Blue Höllinni, 91-75. Í þeim leik var Ólafur Ingi Styrmisson atkvæðamestur fyrir Keflvíkinga með 15 stig og 4 fráköst á meðan að EC Matthews (sem nú hefur yfirgefið liðið) dró vagninn fyrir KR með 25 stigum, 7 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Stóra pósta vantaði í bæði liðin í kvöld. Hjá Keflavík var Hörður Axel Vilhjálmsson fjarri góðu gamni vegna meiðsla á meðan að Þorvaldur Orri Árnason var frá hjá KR.

Gangur leiks

Heimamenn í KR byrjuðu leik kvöldsins ágætlega og er leikurinn í nokkru jafnvægi á upphafsmínútunum. Keflvíkingar ná þó að vera skrefinu á undan að fyrsta fjórðung loknum, 21-24, þar sem mestu munaði um sóknarframlag Igor Maric fyrir þá.

KR gerir vel að halda í fenginn hlut og gott betur undir lok fyrri hálfleiksins. Hleypa Keflvíkingum mest sex stigum á undan sér í öðrum leikhlutanum, en með góðum leik nær KR nánast að loka gatinu áður en liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 46-47.

Stigahæstur fyrir KR í fyrri hálfleiknum var Antonio Williams með 13 stig á meðan að fyrir Keflavík var Igor Maric einnig kominn með 13 stig.

Heimamenn halda áfram að gera vel í upphafi seinni hálfleiksins og komast yfir um miðjan þriðja leikhutann, 59-57. Því ná þeir svo að fylgja eftir með sterku 10-2 áhlaupi og eru komnir með sína mestu forystu til þessa í leiknum þegar tæpar 2 mínútur eru eftir af fjórðungnum, 69-59 og eru 9 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 75-66.

Ólseigir heimamenn ná að hanga á forskoti sínu inn í fjórða leikhlutann og eru enn 7 stigum yfir þegar fimm mínútur eru eftir af venjulegum leiktíma. Keflavík nær þó á næstu mínútunni að jafna leikinn í stöðunni 84-84. Á lokamínútunum nær KR að fá nokkur skot til að detta og læsa hlutunum á varnarhelmingi vallarins. Uppskera að lokum nokkuð öruggan 7 stiga sigur, 94-87.

Ekki fallnir enn

KR voru í kvöld næstum fallnir í fyrsta skipti frá stofnun félagsins árið 1956. Fyrsta deildin var reyndar ekki stofnuð fyrr en átta árum seinna, 1964 og því eru 58 ár síðan að lið gat fallið í fyrsta skipti. Tímabilið verið algjör martröð fyrir liðið sem ekki alls fyrir löngu (2014-2020) vann sex Íslandsmeistaratitla í röð. Þegar 18 umferðir eru búnar hafa þeir aðeins unnið þrjá leiki, úti gegn Þór fyrir áramótin og þá báru þeir sigurorð af Breiðablik og í kvöld gegn Keflavík heima nú eftir áramótin.

Atkvæðamestir

Antonio Williams var bestur í liði KR í kvöld með 29 stig og 6 fráköst. Fyrir Keflavík var Eric Ayala atkvæðamestur með 14 stig, 14 fráköst og 5 stoðsendingar.

Hvað svo?

KR á leik næst komandi fimmtudag gegn ÍR í Skógarseli á meðan að Keflavík fær Íslandsmeistara Vals í heimsókn degi seinna.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -