spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaÓlöf Helga: Hefðum getað staðið okkur betur.

Ólöf Helga: Hefðum getað staðið okkur betur.

Ólöf Helga var temmilega sátt við sigur á Snæfelli í Ólafshúsi í kvöld, 101-81. Haukar voru betri mest allan leikinn en hleyptu gestunum heldur nálægt sér í þriðja leikhluta.

„Kæruleysi í okkur, héldum að leikurinn væri búinn og gáfum þetta eftir,“ sagði Ólöf um laka byrjun sinna stúlkna í seinni hálfleik. Þær hittu illa úr skotum sínum í þriðja leikhlutanum og létu Snæfell stjórna leiknum óþarflega mikið.

Emese Vida, leikmaður Snæfells, átti mjög góðan leik gegn Haukum og virtust Lovísa Björt og aðrir framherjar Haukastúlkna eiga í miklum vandræðum með að dekka hana. Ólöf Helga var ekki ánægð með það og hafði eilitlar áhyggjur af því eftir leik. „Já, ég hef miklar áhyggjur af því. Við erum í vandræðum með miðherja, lentum í því sama með Skallagrím,“ sagði hún og vísaði þar í draumaleikinn sem að Emilie Hesseldal, danskur miðherji Skallagríms, átti gegn Haukum í Ólafshúsi fyrir fjórum leikjum síðan.

Miðherji Skallagríms skoraði 34 stig og endaði með 48 í framlag í þeim leik og í kvöld skoraði Emese Vida 24 stig fyrir Snæfell og endaði með 38 framlagspunkta. Þurfa Haukar mögulega þá á öðrum stórum leikmanni að halda í teignum? Jafnvel að sækja sér annan erlendan leikmann til viðbótar? „Nei, við þurfum ekki fleiri leikmenn. Verðum bara að laga varnarleikinn,“ sagði Ólöf Helga aðspurð um möguleika á viðbót.

Haukar hafa hingað til ekki sýnt sitt rétta andlit á tímabilinu og Ólöf benti á að þrátt fyrir góðan sigur ættu hafnfirsku stelpurnar hennar helling inni. „Já, pottþétt rými til að bæta sig. Vorum alls ekki að sýna okkar rétta andlit. Finnst við ekki hafa gert það allt tímabilið,“ sagði hún og bætti við: „Það er margt sem ég er ánægð með og auðvitað er ég mjög ánægð með að vinna. Fannst samt að við hefðum getað staðið okkur betur.“

Fréttir
- Auglýsing -