spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaÓlöf Helga: Allir á völlinn!

Ólöf Helga: Allir á völlinn!

Ólöf Helga var mjög ánægð eftir að Haukaliðið hennar náði í annan sigur sinn í röð á toppliði í Dominosdeild kvenna. Hafnfirðingar fengu KR í heimsókn og unnu með þremur stigum eftir hörku leik. Er þetta ekki besta leiðin til að byrja árið?

„Já, mjög góð leið,“ sagði Ólöf Helga kát strax eftir leik. „Ég hefði samt viljað klára leikinn aðeins fyrr, við hleyptum aðeins spennu í þetta í lokin. Er samt mjög glöð, höfum sýnt í síðustu leikjum hvað við höfum mikinn karakter í að klára leikina og ég er bara mjög stolt af mínum stelpum.“

Haukar misstu aðeins flugið á kafla í leiknum og minnstu munaði að þær misstu KR-inga of langt fram úr sér. Ólöf fannst vörnin hafa klikkað aðeins á þessum tímapunkti í leiknum. „Við vorum að hjálpa of mikið og ekki að tala saman í vörninni,“ sagði hún og benti sérstaklega á miðherja KR-inga, Hildi Björgu Kjartansdóttur, sem valdinn að því að gestirnir unnu næstum því leikinn. „Hildur er bara svo ógeðslega klár, hún er mjög fljót að finna slíkar glufur. Hún var að skora auðveldar körfur af því að við vorum ekki nógu skipulagðar í vörninni og að hjálpa á leikmenn sem ekki var þörf á að hjálpa á.“

Ólöfu fannst sínar stelpur nýta jólafríið sitt mjög vel og að þær hafi mætt vel undirbúnar í þennan leik. Hún þakkaði líka sérstaklega hægri hönd sinni, Bjarna Magnússyni. „Ég er með langbesta aðstoðarþjálfarann, eða allavega einn hæfasta og reynslumesta. Mikil hjálp frá honum og ég er að læra mikið af honum,“ sagði hún og bætti brosandi við að þau væru hættulegt teymi saman á bekknum.

Þá hafa Haukar unnið Val og KR í seinustu tveim leikjum. Eru þær skyndilega orðnir einhverjir risabanar? Ólöf talaði um að þær hafi alltaf verið svona góðar, bara ólukkulegar með meiðsli og leikmannamál. „Við erum búnar að vera í vandræðum alveg síðan tímabilið byrjaði, höfum t.d. verið nánast alveg án bandarísks leikmanns en eftir að við fengum Randi þá erum við búin að vinna næstum allt,“ sagði hún og vísaði þar í Randi Brown, bandaríska leikmanninn sinn, sem átti glæsta frammistöðu í dag gegn KR. Ólöf bætti við að Haukar hafi líka farið í framlengingu gegn sterku liði Keflavíkur, sem rétt tapaðist, en það hafi einmitt verið fyrsti leikur Randi með liðinu.

„Við eigum mikla meira inni og höfum fengið mikla gagnrýni. Fólk verður samt að skilja að okkur vantar einn besta leikmanninn okkar, hana Evu Margréti, og við vorum ekki með sama ígildi í erlendum leikmönnum. Nú þegar við höfum sama ígildi og önnur lið í erlendum leikmannamálum erum við eitt af sterkustu liðunum.”

Eva Margrét Kristjánsdóttir hefur verið frá eftir að hún fékk heilahristing í byrjun tímabilsins en var í fyrsta sinn í búningi og á bekknum í þessum leik. Ólöf Helga spilaði henni ekki svo maður hlýtur að spyrja sig: Hvenær er von á henni á völlinn? „Við eigum von á henni fljótlega. Ég er mjög spennt að fá hana til baka. Ég bara þori ekki að fara of hratt strax, vil halda henni góðri,“ segir Ólöf Helga. „Það sem skiptir máli er hennar heilsa, það vegur þyngra en nokkrir sigrar. Við erum líka að ná að klára þetta án hennar,“ sagði hún réttilega, enda hafa Haukar núna unnið fimm leiki í röð síðan 1. desember á seinasta ári.

Hvað næst? Hefur Ólöf einhverja hugmynd um hvaða skilaboð hún vil senda út til körfuboltafólks varðandi Hauka? „Allir á völlinn! Þetta var hörku leikur! Flottir áhorfendur núna, en allir verða að fara mæta á völlinn,“ sagði hún að lokum og endurtók hvað henni fannst þetta geggjaður leikur.

Fréttir
- Auglýsing -