14:43
{mosimage}
(Mönnum getur hitnað í hamsi og þá smella þeir þyrlunni stundum á loft)
Kristinn Óskarsson skrifar um dómaramál.
Í síðustu viku ræddi ég um hefðarrétt og reglutúlkanir, einkum hvað varðar skref og mok. Í þessari viku langar mig til að ræða um eina reglubreytingu FIBA og áherslu dómaranefndar KKÍ í kjölfarið.
Körfuknattleikur er ung og lifandi íþrótt sem er í stöðugri þróun. Eitt af einkennum leiksins er að reglum er breytt reglulega til að þroska leikinn. Í upphafi var hugmynd Dr. James Naismith að leikurinn væri án alls ofbeldis og reyndar með minniháttar snertingum. Þó leikmennirnir takist talsvert á í dag hefur hugmyndafræðin með ofbeldið ekkert breyst. Körfuknattleiksreglurnar og áherslur FIBA og dómaranefndar KKÍ leyfa ekkert svigrúm fyrir ofbeldi í neinni mynd. Þannig skerpti FIBA á þessum þætti með því að bæta við regluna um tæknivillur (grein 38.3.1). Þar stendur:
„Tæknivilla leikmanns er leikmannavilla sem felur ekki í sér snertingu við mótherja. Hún felur í sér, en takmarkast ekki af því að:“ Svo er ýmislegt talið upp, þar á meðal „Sveifla olnboga kröftuglega“. Munum að tæknivillur eru án snertingar.
Leikur okkar hefur gjarnan haft slagorðið „leikni framar líkamsburðum“ eins og heitið var á bókinni um 40 ára afmæli KKÍ. Mér finnst séra Friðrik líka hafa hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði: „látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði.“ Í þessum anda ákvað dómaranefnd KKÍ að setja fram áherslur fyrir túlkun á þessu atriði fyrir leikinn á íslandi og ber þátttakendum að virða ákvarðanir dómara, en þeir eru aftur skuldbundnir til að fara að fyrirmælum dómaranefndar. Hér er kaflinn úr áherslum dómaranefndar um þetta mál:
Lögð er áhersla á að stöðva grófan og hættulegan leik. Dómarar skulu sérstaklega taka á atvikum þar sem olnboga er sveiflað ógætilega, hvort heldur er af ásetningi eða ósjálfrátt, með eða án knattar. Til viðmiðunar skulu dómarar hafa þetta íhuga:
i. Olnbogi sem snertir andstæðing ekki. Tæknivilla.
ii. Olnbogi sem snertir andstæðing laust í búk eða útlimi. Óíþróttamannsleg villa.
iii. Olnbogi snertir búk eða útlimi andstæðings kröftuglega. Brottrekstrarvilla.
iv. Olnbogi sem snertir háls eða höfuð andstæðings. Brottrekstrarvilla.
Nú getur vel verið að einstaka aðilar séu ekki sammála þessum áherslum. Það mikilvægasta er að gerð er tilraun til að samræma aðgerðir og skýra út fyrir þátttakendum og dómurum hver framgangsmátinn á að vera.
Þetta hefur ekki verið stórt vandamál í vetur sem betur fer. Þó eru dæmi um tæknivillur og brottrekstur vegna þessarar áherslu dómaranefndar KKÍ. Mikilvægt er að leikmenn, þjálfarar og dómarar sammælist um að hreinsa leikinn að grófum og hættulegum leik, það er öllum fyrir bestu.
Næst þegar þú sér dómara dæma tæknivillu á einhvern sem sveiflaði olnboga ógætilega, þá er hann bara að framfylgja leikreglum og þeim áherslum dómaranefndar KKÍ eins og hann er þjálfaður til.
Samantekt:
Körfuknattleikur er ung íþrótt í þróun. Reglum er breytt reglulega. Grófur og hættulegur leikur er ekki ásættanlegur og taka reglur FIBA og áherslur dómaranefndar sérstaklega á slíku. Þegar leikmaður sveiflar olnboga sem skapar, eða getur skapað öðrum hættu, skal honum refsað.
Með bestu kveðjum,
Kristinn Óskarsson, alþjóðlegur körfuknattleiksdómari
Fyrri skrif Kristins
Mok – sóp – tvígrip
Átti Isom að fá þrjú skot? SVARIÐ
Átti Isom að fá þrjú skot?
Af flottum troðslum
Umgjörð leikja
Af hverju er alltaf dæmt á unga leikmanninn?
Af hverju dæmir dómarinn ekki
Snertingar milli varnar- og sóknarmanns



