spot_img
HomeFréttirÓlíkindatólið Grindavík

Ólíkindatólið Grindavík

Lið: Grindavík
Íslandsmeistaratitlar eftir úrslitakeppni: 3
Síðasti titill: Bikarmeistarar 2013-2014
Staða eftir deildarkeppni 2016-2017: 4. sæti
Mótherji í 8-liða úrslitum: Þór Þorlákshöfn

Innbyrðisviðureignir gegn Þór í vetur:
Rauði þráður 8-liða úrslitanna er að liðin skiptu öll með sér deildarviðureignunum. Grindavík vann spennuslag í Mustad-höllinni 73-71 en Þór hafði sigur í Icelandic Glacial Höllinni 96-85.

Hvað þarf Grindavík að gera til að komast í undanúrslit?
Grindvíkingar þurfa fjölbreytt framlag og þurfa á því að halda að Lewis Clinch spili af meiri festu en hann hefur gert í deildarkeppninni. Vissulega getur þetta virkað sem furðuleg fullyrðing um Clinch sem er með 21,1 stig og 5,1 stoðsendingu að meðaltali í leik en við höfum öll séð áður hvað í honum býr og þau gæði mega ekki bíða mikið lengur með að dæla sér inn á parketið. Ólafur Ólafsson hefur verið magnaður upp á síðkastið og þar má ekki slá slöku við og X-maðurinn Þorleifur verður að taka „rispurnar“ frægu. Grindvíkingar eru ólíkindatól og þeir gætu vel lent í basli eða farið langt og allt þar á milli – þið verðið eiginlega að hringja í Sveinbjörn Skúla og Óla Geir ef þið viljið átta ykkur betur á þeim.

Hvað gæti farið úrskeiðis?
Það gæti vel orðið að gulir og glaðir yrðu með allt á hornum sér…við höfum séð það áður. Það er að finna skap í þessum hópi Grindvíkinga sem er gott og blessað en þeir eiga það til að fara algerlega út fyrir efnið og þá veit ekki á gott. Ef litríkustu menn liðsins, Ólafur og Þorleifur, taka ekki þétt um stjórnartaumana í úrslitakeppninni gæti farið illa.

Lykilleikmaður:
Okkar mat er að Ólafur Ólafsson sé lykilleikmaður Grindavíkur í þessari rimmu. Hann hefur skilaði 20+ í framlagi frá janúar til dagsins í dag og er með augastað á sæti til Finnlands svo pressan á honum snýr ekki einvörðungu að Íslandsmótinu þó það sé vissulega í brennidepli núna. Það verður Þór erfitt að eiga við Óla, hann setur´ann fyrir utan, fer sterkt á körfuna og hærra en flestir svo hann mun baka þeim vandamál.

Fylgist með:
Ingvi Þór Guðmundsson er leikmaður sem þið ættuð að festa auga á. Mínútum hans hefur snarfjölgað eftir áramót og hann setti 18 stig á Skallagrím í lokaumferðinni. Ingvi verður 19 ára á þessu ári og er að smokra sér nær og nær góðu ábyrgðarhlutverki innan Grindavíkurliðsins með fleiri fráköst í leik heldur en stoðsendingar.

Spá hlustenda:
Fyrir síðasta þátt af Podcasti Karfan.is voru hlustendur beðnir um að spá fyrir um úrslit þessa einvígis. Flestir eða 30% svarenda telja að Þór Þorlákshöfn vinni einvígið í fjórða leik. Næstflestir eða 26% telja að Grindavík vinni seríuna í oddaleik. Alls 59% aðspurðra veðja á Þór og 41% Grindavík.

Leikdagar í 8-liða úrslitum
Leikur 1:
16. mars Grindavík – Þór Þorlákshöfn
Leikur 2: 19. mars Þór Þorlákshöfn – Grindavík
Leikur 3: 22. mars Grindavík – Þór Þorlákshöfn – beint á Stöð 2 Sport

Ef þarf
Leikur 4:
24. mars Þór Þorlákshöfn – Grindavík
Leikur 5: 26. mars Grindavík – Þór Þorlákshöfn

Jóhann Ólafsson – þjálfari

Þorleifur Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -