spot_img
HomeFréttirÓlafur stórkostlegur er Grindavík lagði Njarðvík

Ólafur stórkostlegur er Grindavík lagði Njarðvík

Grannarnir frá Suðurnesjum, Grindavík og Njarðvík mættust í Mustad-höll Grindvíkinga í fjórðu umferð Dominosdeildarinnar í kvöld.  Gengi liðanna hingað til undir væntingum, Grindvíkingar 0-3 og Njarðvík með einn sigur.  Grindvíkingar eins og margoft hefur komið fram í mínum pistlum, spiluðu útlendingalausir fyrstu tvo leikina þar sem Jamal var meiddur en svo var hann mættur ásamt Bosmanninum Valdas í síðasta leik á móti Haukum úti en allt kom fyrir ekki.  Njarðvíkingar hafa líka hikstað í upphafi móts og létu einn þriggja útlendinga sinna fara, litháenska leikstjórnann Zabas og tefldu því bara fram tveimur útlendingum í kvöld.

Annað hvort var vörn heimamanna geysisterk í byrjun eða sókn Njarðvíkinga úti á túni….  Kannski sambland en Njarðvíkingar áttu í mesta basli með að fá almennilegt “look” á körfuna.  Hinum megin gekk heimamönnum betur að fá opin skot en þau duttu svo sem ekkert í kippum niður.  Staðan að loknum fyrsta fjórðungi 20-11.

Grænir byrjuðu heldur betur í öðrum leikhluta og uppskáru fljótlega tæknivillu frá Grindvíkingum þegar Daníel þjálfari mótmælti kröftuglega “no-call” á Valdas en ég er að segja ykkur það, smellurinn þegar brotið var á honum heyrðist alla leið til Njarðvíkur……  Gulir fundu þó fljótt leiðina að körfunni og vörnin áfram firnasterk hinum megin.  Þegar fjórar mínútur lifðu fyrri hálfleiks var staðan orðin 29-16.  Njarðvíkingar áttu síðustu rispu hálfleiksins og skoruðu þrist í lokin og því munaði bara níu stigum í hálfleik, 35-26.

Sami barningur var í byrjun seinni hálfleiks en Njarðvíkingar áttu aðeins auðveldara með að skora og eftir fjórar mínútur voru þeir búnir að skora stigi meira en allan fyrsta fjórðunginn.  Vörn gulra hertist síðan auk þess sem þriggja stiga skotin duttu hvert af fætur öðru og sérstaklega var Óli Ól heitur fyrir utan og var um tíma með 6/7 í þristum!  Grindavík bætti heldur í út fjórðunginn og labbaði með þægilegt 15 stiga forskot í lokabardagann, 64-49.

Þessi leikur sem fyrirfram mátti búast við að yrði spennuleikur náði aldrei að komast í þær hæðir í raun, Njarðvík náði muninum niður fyrir 10 stig og nóg eftir en það vantaði einhvern veginn allan neista í ljónin og öruggur sigur heimamanna staðreynd, 78-66.

Óli Ól var yfirburðamaður á vellinum í kvöld, smellti í flotta tvennu (30 stig og 10 fráköst).  Drengurinn var alveg sjóðandi fyrir utan þriggja stiga línuna eins og áður hefur komið fram og setti 7/11.  Jamal með 18 stig og 9 fráköst og Dagur Kár með 14 stig og 8 stoðsendingar næstir Óla.  Í raun spiluðu allir vel og Grindvíkingar sýndu þarna að þeir eru eitt af liðunum sem mun keppa um titlana!

Það er einhver deyfð fyrir Njarðvíkingum en eins og áður kom fram létu þeir leikstjórnandann sinn fara um daginn.  Oft þýðir það að aðrir bæti við tönn en svo var ekki í kvöld og eitthvað vantar upp á.  Ef ég smelli mér í Fantasy-búninginn þá sendi ég Kanann heim, fæ mér amerískan bakvörð og stóran Bosman en svoleiðis skipti gætu komið Njarðvíkingum á beinu brautina!  Mario Matasovic sá eini með lífsmarki, skilaði 23 í framlag (14 stig og 12 fráköst).

Þungu fargi af Grindvíkingum og þeir jafnvel komnir á beinu brautina en Njarðvíkingar þurfa að kíkja inn á við.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, viðtöl / Sigurbjörn Daði

Myndir / SBS

Fréttir
- Auglýsing -