21:38
{mosimage}
(Jón Arnór hafnaði í 10. sæti í kjörinu)
Handknattleiksmaðurinn Ólafur Stefánsson er Íþróttamaður ársins 2008 en kjörið var kunngjört á Grand Hótel í Reykjavík nú í kvöld. Í öðru sæti var liðsfélagi Ólafs úr íslenska handknattleikssilfurliðinu Snorri Steinn Guðjónsson. Jón Arnór Stefánsson leikmaður KR í Iceland Express deild karla í körfuknattleik var tíundi í kjörinu með 39 stig en Helena Sverrisdóttir leikmaður bandaríska háskólaliðsins TCU var í 11. sæti með 33 stig. Ólafur bróðir Jóns Arnórs fékk fullt hús stiga eða 480 talsins.
Það voru 24 félagsmenn í Samtökum íþróttafréttamanna sem höfðu kosningarétt og röðuðu tíu íþróttamönnum niður á lista. Sá sem settur er í fyrsta sæti fær 20 stig, sá sem kemur í öðru sæti 15, sá þriðji 10, sá sem lendir í fjórða sæti fær 7 stig og svo lækkar þetta um eitt stig við hvert sæti eftir það.
Helena Sverrisdóttir var ekki viðstödd afhendinguna þar sem hún er þegar komin til Bandaríkjanna við nám og körfuknattleiksiðkun með TCU. Móðir Helenu tók við viðurkenningu Helenu í hennar stað.
Sjá nánar um kjörið:
http://www.mbl.is/mm/sport/frettir/2009/01/02/olafur_stefansson_ithrottamadur_arsins_2008/



