Grindvíkingar urðu í kvöld fyrsta liðið til að sigra Njarðvíkinga á þeirra heimavígi, Ljónagryfjunni. 99-102 var lokaniðurstaða leiksins þar sem að Njarðvíkingar voru hársbreidd frá því að ná framlengingu.
Liðin voru bæði nokkuð spræk framan af og var mikið skorað strax í upphafi. Í þriðja leikhluta fór Páll Axel Vilbergsson í gang og raðaði niður körfum á lánlausa Njarðvíkinga. Njarðvíkingar voru þó aldrei langt undan en þar voru gestirnir sem gengu til leikhlés með 9 stiga forystu og Páll Axel stóð í björtu báli svo heitur var drengurinn orðinn.
Gestirnir héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og virtist lítið ætla að ganga upp hjá heimamönnum. Sóknarleikur þeirra var tilviljanakenndur og á fimm mínútna kafla í þriðja fjórðung náðu heimamenn ekki að skora eina körfu á meðan Grindvíkingar skoruðu 11 stig og voru komnir í 17 stiga forystu 61:78. Heimamenn klóruðu í bakkann fyrir lok þriðja leikhluta og voru 12 stigum undir.
Það var ekki fyrr en fimm mínútur voru eftir af leiknum að Njarðvíkingar hófu að spila með krafti og meira sjálfstrausti. Jafnt og þétt minnkuðu þeir mun Grindvíkinga niður og eftir þrist frá Magnúsi Gunnarssyni voru aðeins tvö stig sem skildu liðin þegar um 40 sekúndur voru eftir af leiknum.
Varnarleikur heimamanna í næstu sókn var hreint út sagt frábær og allt stefndi í að skotklukka Grindvíkinga rynni út þegar Ólafur Ólafsson töfraði fram ótrúlegt þriggja stiga skot,spjaldið ofaní og munurinn aftur komin í 4 stig og aðeins 26 sekúndur eftir. Þrátt fyrir þetta þá áttu Njarðvíkingar von á loka sekúndu leiksins í að jafna eftir að umræddur Ólafur hafði geygað á öðru víti en Magnús Þór Gunnarsson brást bogalistin og gestirnir fögnuðu ógurlega sigri sínum, enda kærkomin sigur þar á bæ.
Hjá Grindavík var sem fyrr segir Páll Axel Vilbergsson sjóðandi í fyrri hálfleik og endaði leikinn með 32 stig. Það var svo Ólafur Ólafsson sem var óvænt hetja gestanna sem setti niður 20 stig og líkast til eina mikilvægustu körfu leiksins. Hjá Grindavík vantaði hinsvegar Þorleif Ólafsson bróðir Ólafs.
Öllu jafnara var þetta hjá Njarðvíkingum en Magnús Þór hittnaði undir lokinn og endaði með 21 stig en pilturinn spilaði sár þjáður allan leikinn eftir að hafa fengið slæmt högg á lærið snemma leiksins. Jóhann Árni, Guðmundur Jónsson og Friðrik Stefánsson skoruðu alli 16 stig.



